Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Fjölmiðlar eiga ekki að grafa undan ríkisstjórninni“

22.06.2021 - 05:31
epa09292462 Hong Kong Chief Executive Carrie Lam speaks during a press conference in Hong Kong, China, 22 June 2021. Lam said authorities acted in accordance with the law regarding the freezing of the assets of the Apple Daily newspaper.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmiðlar í Hong Kong skyldu láta eiga sig að grafa undan ríkisstjórninni segir Carrie Lam, æðsti embættismaður borgarinnar. Hún var með þessum orðum að bregðast við gagnrýni vestrænna ríkja við aðgerðum kínverskra stjórnvalda gagnvart dagblaðinu Apple Daily.

Dagblaðið hefur stutt lýðræðishreyfinguna í Hong Kong af alefli. Eigandi þess situr í fangelsi og ritstjóri þess og stjórnarformaður útgáfunnar sæta ákæru fyrir fyrir leynimakk við erlent ríki eða önnur utanaðkomandi öfl sem ógna öryggi kínverska ríkisins.

Í harðorðum yfirlýsingum Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja segir að slíkar aðgerðir grafi undan frelsi fjölmiðla og orðspori Hong Kong sem miðstöðvar kaupsýslu.  

Í umfjöllun AFP fréttastofunnar um málið segir að löngum hafi Hong Kong getað státað af líflegum, kröftugum, alþjóðlegum fjölmiðlum en að frelsi þeirra hafi dalað mjög undanfarin ár.

Rótgróin hefð sé fyrir málfrelsi í Hong Kong ólíkt því sem gerist á meginlandi Kína þar sem flestir fjölmiðlar eru ritskoðaðir og í ríkiseigu.

Þjóðaröryggislögin umdeildu sem sett voru síðasta sumar gera margvíslegar skoðanir ólöglegar og því veltir fjölmiðlafólk í Hong Kong fyrir sér hvaða viðhorf eða fréttaflutningur gætu leitt til rannsókna stjórnvalda.

Carrie Lam andmælti öllum ásökunum um að yfirvöld í Hong Kong nýttu öryggislögin til að þagga niður í fjölmiðlum eða til að kæfa málfrelsi. Í liðinni viku frystu kínversk stjórnvöld eignir Apple Daily á grundvelli ákvæða öryggislaganna.

Aðgerðir Kínastjórnar sem miða að því að uppræta allan mótþróa eftir viðamikil mótmæli árið 2019 hafa vakið mikinn ugg varðandi framtíð Hong Kong.

Þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða Carrie Lam vegna áhlaups lögreglu á ritstjórnarskrifstofur blaðsins og um frelsi fjölmiðla í borginni almennt sagði hún að eitt væri að gagnrýna stjórnvöld, alvarlegra væri að skipuleggja verknaði sem græfu undan ríkisstjórninni.  „Allir ættu að geta greint þar á milli," sagði hún. 

Tilgangur Apple Daily með skrifum sínum væri að rífa niður öryggislögin og því væri málshöfðun gegn útgefanda þess og ritstjóra ekki árás á eðlilega blaðamennsku. 

Aðspurð sagði hún blaðamann vera í betri aðstöðu en hún að meta hvað teljist eðlileg blaðamennska í augum stjórnvalda.  Útgefendur blaðsins hafa beðið öryggisráð Hong Kong um að fá að losa fé úr frystingu  svo greiða megi laun.