Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm þúsund skammtar urðu afgangs í Höllinni

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Bólusetningu í Laugardalshöll lauk rétt fyrir klukkan fjögur en tæplega níu þúsund þáðu bóluefni Janssen í dag. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafði um það bil 14 þúsund skammta til að nota í dag og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir að hún hafi vonast eftir meiri aðsókn. Skammtarnir fimm þúsund sem eftir urðu fyrnist þó ekki, enda hafi verið beðið með að blanda þá.

„Við hefðum viljað sjá fleira fólk í lokin. Við vorum að renna blint í sjóinn með það hver eftirspurnin yrði og hversu margar eftirlegukindur væru þarna úti. Það reyndust ekki margir. Við opnuðum allt um hádegið og buðum öllum að koma sem vildu og áttu eftir að fá bólusetningu. Og það hefur bara verið einn og einn að koma. Þannig að vonandi eru bara allir sem vilja bólusetningu búnir að koma til okkar,“ segir Ragnheiður. Það sé erfitt að átta sig á því nákvæmlega hversu margir íbúar á Íslandi kunni að eiga eftir að fá bólusetningu, enda sé ekki hægt að ráða af Þjóðskrá hverjir búa hér í augnablikinu og hverjir ekki. Þá viti heilsugæslan heldur ekki hversu margir ætla að hafna bóluefni eða bíða með að fá það. 

Áfram verður bólusett á morgun: „Það verður Pfizer-bólusetning og þá höfum við sama háttinn á, bólusetjum og ef það verða aukaskammtar í lokin þá bjóðum við upp á þá. Það er bókuð dagskrá til klukkan þrjú og viljum fyrst fá til okkar þá sem eiga strikamerki í Pfizer. Ef þeir koma ekki allir þá opnum við upp á gátt eins og við gerðum í dag,“ segir hún. Morgundagurinn er síðasti dagurinn sem boðið er upp á fyrri bólusetningu, í bili. Eftir það verða aðeins seinni bólusetningar og svo fer starfsfólkið í sumarfrí.