Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ámælisverðir viðskiptahættir viðgengust í Namibíu

22.06.2021 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: Af vef SVN - Þorsteinn Már Baldvinsson
Forstjóri Samherja biðst afsökunar á framferði fyrirtækisins í Namibíu en segir það eindregna afstöðu sína að engin refsiverð brot hafi verið framin þar, nema af hálfu Jóhannesar Stefánssonar fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu. Þá er einnig beðist velvirðingar á mistökum sem gerð voru í Færeyjum. Samherji birti í morgun niðurstöður rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfseminni í Namibíu. 

Auglýsing Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra útgerðarfélagsins Samherja, birtist bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag. Þar er því lofað að það sem gerðist í starfsemi útgerðar fyrirtækisins í Namibíu gerist ekki aftur. Gerð hafi verið mistök sem beðist er afsökunar á. Veikleikar hafi verið í stjórnskipulagi og ámælisverðir viðskiptahættir hafi viðgengist, lausatök hafi verið ástunduð sem ætlunin sé að læra af og því hafi verið gripið til viðamikilla ráðstafana. Framferðið hafi valdið uppnámi hjá starfsfólki, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum og víðar í samfélaginu, eins það er orðað í auglýsingunni. 

Á heimasíðu Samherja er ítarleg yfirlýsing þar sem farið er yfir helstu niðurstöður rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein. Til hafi staðið að kynna íslenskum stjórnvöldum niðurstöðurnar en því hafi verið frestað ítrekað af alkunnum ástæðum. Rétt sé að gera grein fyrir helstu niðurstöðum. 

Í tilkynningu Samherja segir að engir starfsmenn Samherja né félög í þeirra eigu séu á meðal ákærðra í refsimálum í Namibíu sem rekin séu gagnvart Namibíumönnum meðal annars fyrir meinta mútuþægni frá starfsmönnum Samherja. Kyrrsetningamál sé einnig rekið, meðal annars vegna eigna félaga Samherja í landinu. Forsvarsmenn Samherja hafi skilað málsvörn vegna þessa í lok maí. Í tilkynningu fyrirtækisins segir að það sé í fyrsta sinn sem félög tengd Samherja fái tækifæri til að leggja fram gögn og taka til varna fyrir opinberum dómstólum. 

Ýmislegt vakið upp spurningar

Ýmislegt í rekstri fyrirtækisins hafi vakið upp spurningar um viðskiptahætti. Til dæmis ráðning innlendra ráðgjafa í Namibíu sem nokkrir höfðu pólitísk tengsl þar á meðal og að láta óátalda aðkomu háttsetra aðila í stjórnkerfi Namibíu að ráðgjöf þeirra. Þó hafi verið sýnt fram á að raunveruleg ráðgjöf hafi verið veitt, þó hafi ráðgjafarnir fengið greiðslur án greinargóðra skýringa. Samherji hafnar þó alfarið ásökunum um mútugreiðslur en tekur undir að betur hefði átt að gæta að hvernig greiðslur voru gerðar, hverjir tóku við þeim og á hvaða grundvelli og hverjir höfðu heimildir til að gefa fyrirmæli um þær og hvert þær skyldu berast.

Óreiða ríkti um fjölmargt

Samherji hafnar því sem nefnt er órökstuddar fullyrðingar um að tvíhliða samningur milli Namibíu og Angóla hafi verið gerður að undirlagi Samherja eða dótturfélaga til að afla ótilhlýðilegra hlunninda. Samningurinn hafi byggst á áralangri vinnu og gagnkvæmum hagsmunum. Í tilkynningunni segir einnig að mikil óreiða hafi ríkt um fjölmargt í rekstrinum þegar nýir stjórnendur tóku við, meðal annars um greiðslur fyrir veiðiréttindi. Langan tíma hafi tekið að átta sig á að samningum sem gerðir voru í tíð fyrrverandi framkvæmdastjóra. Starfshættir sem tíðkast hafi þá hafi verið látnir viðgangast allt of lengi. Þá er einnig beðist velvirðingar á mistökum sem gerð voru vegna alþjóðlegrar skipaskrár í Færeyjum. Mistök hafi þar orðið í rekstrinum. Tryggingafjárhæð hafi verið tekin frá vegna þessa.
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV