Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Allir velkomnir í Janssen-bólusetningu í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Allir þeir sem ekki hafa fengið bólusetningu fyrir kórónuveirunni og vilja þiggja hana eru velkomnir í Laugardalshöll frá hádegi í dag á meðan birgðir endast. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við fréttastofu.

Til stóð að hafa opið hús frá klukkan 14 í dag en þónokkuð hafi verið eftir af skömmtum frá því í morgun og því ákveðið að opna fyrir öllum fyrr. Ragnheiður Ósk hvetur sérstaklega þá sem hafa fengið staðfesta kórónuveirusýkingu til þess að mæta en öllum þeim sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr sé velkomið að koma í bólusetningu í dag.

Á morgun verður bólusett með Pfizer í höllinni en AstraZeneca-bólusetningar sem áttu að vera á fimmtudag frestast því bóluefnið er ekki komið til landsins. Gert er ráð fyrir að um 33 þúsund verði bólusett í þessari viku, samtals fá 18 þúsund Pfizer, þar af 8.500 fyrri bólusetningu, tíu þúsund Janssen og á landsbyggðinni fá liðlega fimm þúsund seinni skammt AstraZeneca.