Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þið eruð gömul, þið eruð ekki arðsöm“

21.06.2021 - 20:26
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar segir dapurlegt að Akureyrarbær segi sig frá málefnum eldra fólks á þeim grundvelli að reksturinn sé ekki arðsamur. Bæjarfulltrúi á Akureyri óttast að þjónustan versni.

Framkvæmdarstjórinn meðal þeirra sem fengu sparkið

Akureyrarbær skilaði rekstri öldrunarheimila til ríkisins í fyrra, eftir að hafa greitt með þjónustunni árum saman. Reksturinn var síðan boðinn út og í vor tók einkafyrirtækið Heilsuvernd hann yfir. Á föstudag var svo 13 starfsmönnum sagt upp í hagræðingarskyni, þar á meðal framkvæmdarstjóranum, Halldóri S. Guðmundssyni.

Uppsögnin kom á óvart

„Þetta kom mér svolítið á óvart sko vegna þess að það eru ekki nema 10 dagar, eitthvað svoleiðis síðan ég sat á fundi þar sem við vorum að undirbúa málin og allir voru að leggjast á eitt sem hópur um það hvert við værum að fara. Svo hef ég náttúruleg sjálfur verið að halda því fram að ég sjái fram á að taka þátt í þessu nýja fyrirkomulagi og hafði ákveðnar væntingar og hafði drauma um að það myndi gerast en svo bara gerist þetta,“ segir Halldór. 

Sjá einnig: Áfall að vera látinn fara eftir þrjátíu ára starf

Málefni eldra fólks fyrst og fremst samfélagslegt verkefni

Hann segir bæinn bera ríka ábyrgð í því hvernig fór. „Málefni eldra fólks, eins og margt annað væri fyrst og fremst samfélagslegt verkefni, ekki læknisfræðilegt verkefni vegna þess að það að vera gamall, það er ekki sjúkdómur sko, það er þroskaferli og það að þroskast í þessu samfélagi er það sem ég óska eftir. En það er dapurt þegar nærsamfélögin okkar segja: „Þið eruð gömul, þið eruð ekki arðsöm, þið skilið ekki neinu, við hættum að bera ábyrgð á ykkur. Það er dapurt ef það á að vera niðurstaðan.“

Ekki óska niðurstaða

Oddvitar stjórnarflokkanna í bæjarstjórn sem fréttastofa ræddi við í dag eru sammála um að þetta sé ekki óska niðurstaða. Það hafi samt sem áður ekki verið hjá henni komist.“

Nú er þetta niðurstaðan, búið að segja upp fólki og möguleg einhverjar skerðingar á þjónustunni, teljið þið ykkur bera einhver ábyrgð á stöðunni sem upp er komin?

„Nei það er nú bara þannig að hjúkrunarheimili og rekstur hjúkrunarheimila er ábyrgð ríkisins og þaðan á fjármagn til rekstrarins að koma. Það er ekki réttlætanlegt af okkar hálfu að borga hundruð milljóna ár hvert með þessum rekstri af útsvarstekjum bæjarins,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins. 

Skíthrædd um að þjónusta versni

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingrinnar tekur í sama strneg. „Við mátum stöðuna þannig að það væri alveg útilokað að ná betri samning og að ríkið ætlaði sér ekki að setja meiri fjármuni inn í þetta og þar af leiðandi var þetta fullreynt vegna þess að við vorum búin að fara í úttekt og greina stöðuna mjög ítarlega og það sem við hefðum geta gert var að lækka laun, segja upp starfsfólki eða einfaldlega sinna ekki lögbundnum skyldum og við vorum bara ekkert reiðubúin í það,“ segir Hilda.

Óttist þið að þjónustan verði verri fyrir íbúa Akureyrarbæjar sem þurfa að nota þessa þjónustu?

„Auðvitað er ég skíthrædd um það, það er nú bara einfalt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Guðmundur Baldvin