Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stjarnan vann ÍBV - Jafnt á Hlíðarenda

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjarnan vann ÍBV - Jafnt á Hlíðarenda

21.06.2021 - 19:51
Stjarnan vann ÍBV 3-0 í Garðabæ og Valur og Þór/KA gerðu jafntefli á Hlíðarenda í fyrstu leikjum kvöldsins í úrvalsdeild kvenna í fótbolta.

Leikur Vals og Þórs/KA á fór rólega af stað en á 19. mínútu skoraði Elín Metta Jensen mark fyrir Valskonur. Stuttu eftir að seinni hálfleikur var flautaður á var vítaspyrna dæmd á Örnu Eiríksdóttur eftir að hún fékk boltann í höndina. Margrét Árnadóttir skoraði fyrir Þór/KA úr vítinu og staðan 1-1. Hvorugt lið náði að koma boltanum í markið aftur og niðurstaðan því jafntefli.  

Stjarnan tók á móti ÍBV í Garðabæ á sama tíma. Á 14. mínútu komust Stjörnukonur yfir með marki frá Hildigunni Ýr Benediktsdóttur og það reyndist eina markið í tiltölulega rólegum fyrri hálfleik. Vítaspyrna var dæmd á Stjörnukonuna Málfríði Ernu Sigurðardóttur sem fékk boltann í höndina áður en hún skall á Delaney Pridham og uppskar gult spjald fyrir. Delaney tók vítið sjálf en Birta Guðlaugsdóttir í marki Stjörnunnar varði það örugglega.

Á 69. mínútu bætti Betsy Hassett öðru marki við fyrir Stjörnuna og Hildigunnur Ýr skoraði svo það þriðja á 75. mínútu. Málfríður Erna fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 90. mínútu en það kom ekki í veg fyrir að Stjarnan sigldi 3-0 sigri heim. 

Eftir þessa leiki eru Stjörnukonur komnar upp í fjórða sæti með 10 stig og Valskonur sitja tímabundið á toppnum með 14 stig. ÍBV fara niður í sjöunda sæti og Þór/KA eru enn í því áttunda. Sjöunda umferðin klárast í kvöld með tveimur leikjum sem hefjast klukkan 20. Selfoss og Breiðablik mætast í risaleik og svo Þróttur Reykjavík og Fylkir.