Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stiklað á hrauni: „Þetta er auðvitað fráleit hegðun“

Mynd með færslu
 Mynd: vefmyndavél mbl.is - mbl.is
Borið hefur á því í auknum mæli síðustu daga að fólk hætti sér ofan á nýrunnið hraun við Fagradalsfjall. „Það er glóandi hraun þarna undir sem getur verið nokkurhundruð gráðu heitt og það getur verið þunn skorpa yfir sem er hægt að stíga í gegnum,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. 

„Bara það að stíga ofan í sprungur, misfellur eða lægðir í hrauninu getur verið nóg til að maður brenni sig því það getur verið gríðarlegur hiti þarna ofan í. Hann finnst oft vel á yfirborðinu en enn meira ef fólk teygir sig inn í hraunið. Svo það er mjög auðvelt að ná sér í alvarlega brunaáverka ef fólk fer ekki varlega,“ bætir hann við.

Ferðamenn síður meðvitaðir um hættur

Stundin fjallaði um áhættuhegðun ferðamanna á svæðinu fyrr í dag og með fréttinni fylgja skjáskot úr vefmyndavél Mbl.is. „Frá því að þetta byrjaði hefur alls konar fólk heimsótt svæðið, fyrst og fremst Íslendingar, jafnvel fólk sem hefur ekki hreyft sig eða farið til fjalla í tugi ára sá sig knúið til að fara og kíkja á þetta, enda gríðarlegt aðdráttarafl sem þetta svæði hefur. En það virðist vera nokkuð vel innprentað í Íslendinga og þá sem búa hér að það sé ekki góð hugmynd að ganga á nýju hrauni. En það er vitneskja sem virðist ekki vera hjá ferðamönnum. Og það var viðbúið að það yrðu nýjar áskoranir sem myndu fylgja því þegar landið var opnað aftur og við fórum að fá mikið af ferðamönnum sem eru ekki vanir svona atburðum eins og heimafólk,“ segir Rögnvaldur í samtali við fréttastofu.

Og eruði í sérstakri vinnu við að bregðast við þessum nýju áskorunum?

„Fólk getur náð sér í upplýsingar hjá upplýsingamiðstöðinni í Grindavík og Ferðamálastofu og Safe Travel. Þar eru upplýsingar um þetta en þetta verður bara eilífðaráskorun fyrir okkur að koma þessum upplýsingum til fólks sem þekkir ekki til og svo eru sumir sem eru með þessar upplýsingar en taka samt svona ákvarðanir,“ svarar hann. 

Hvenær er öruggt að ganga á hrauni?

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur, segir erfitt að segja til um það hvenær hraunið er orðið nógu þurrt og kalt til þess að það sé öruggt að ganga á því. „Það getur tekið mjög langan tíma, þetta er svo rosalega heitt. En tíminn fer aðallega eftir því hversu þykkt það er. Þetta er bara mikil áhætta,“ segir hún. 

Jónas Guðmundsson hjá slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að meira hafi borið á áhættuhegðun eftir að ferðamenn fóru að flykkjast til landsins og að við því hafi verið brugðist: „Við erum búin að bæta við í texta á vefsíðum okkar að fólk eigi ekki að labba á hrauninu. Við erum með landverði á staðnum 12 tíma á dag og björgunarsveitir í 6-16 tíma á dag. En samt erum við að sjá þetta. Það er bara mjög erfitt að segja eitthvað skynsamlegt við þessu, þetta er auðvitað fráleit hegðun. Fólk áttar sig ekki á því að allt niður í 20 cm undir er um 1000 gráðu heitt hraun,“ segir Jónas.

Hann óttast að samfélagsmiðlar ýti undir áhættuhegðun og fólk fái slæmar hugmyndir þaðan. Nú þurfi allir að leggjast á eitt til að sporna gegn þessu: „Við þurfum að gera þetta skýrara á vefsíðum okkar og auka upplýsingagjöf, en það er dýrt og illframkvæmanlegt að auka vaktina á svæðinu. Og við þurfum að virkja ferðaþjónustuna með okkur, rútufyrirtæki, leiðsögumenn, bílaleigur og hvaðeina,“ segir Jónas.