Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Refsiðgerðir hertar gegn Hvíta-Rússlandi

epa09235230 Russian President Vladimir Putin (R) and Belarusian President Alexander Lukashenko (L) smile during their informal meeting in Sochi, Russia, 29 May 2021. This is the third meeting in a year between Alexander Lukashenko and Vladimir Putin, but the first after the aggravation of relations between Belarus and the EU due to the situation with the Ryanair flight.  EPA-EFE/SERGEI ILYIN/SPUTNIK/KREMLIN / POOL
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur reynst Aleksander Lukashenko haukur í horni vegna refsiaðgerða vestrænna ríkja. Mynd: EPA-EFE - Sputnik
Sjö hvítrússneskir embættismenn voru í dag settir á svartan lista Evrópusambandsins og Bretlands fyrir að hafa átt þátt í að farþegaþota Ryanair var í síðasta mánuði þvinguð til að lenda í Minsk. Þeirra á meðal eru varnarmála- og samgönguráðherra landsins. Bandaríkin og Kanada hertu einnig refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi.

Sonur forsetans á svarta listanum

Til viðbótar við embættismennina sem tilkynnt var um að yrðu beittir refsiaðgerðum var 71 bætt við. Má þar nefna Dmitry, son Aleksanders Lukashenkos forseta, Liliyu, tengdadóttur hans og rússneska auðmanninn Mikhail Giutseriyev. Fólkið er sagt hafa tekið þátt í að brjóta stjórnarandstöðu Hvíta-Rússlands á bak aftur. 

Það voru utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna 27 sem ákváðu þetta á fundi í Lúxemborg í dag. Jafnframt ákváðu þeir að beita refsiaðgerðum gegn ýmsum ríkisfyrirtækjum í Hvíta-Rússlandi, svo sem í tóbaksiðnaði, áburðarframleiðslu og útflutningi olíu og olíuvara. Frekari aðgerðir eru boðaðar á næstunni. 

Bandaríkin sýna samstöðu

Þá tilkynnti utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í dag að refsiaðgerðum yrði beitt gegn tugum embættismanna í hvítrússneska embættismannakerfinu. Í yfirlýsingu frá Antony Blinken utanríkisráðherra segir að þetta sé gert til að sýna samstöðu beggja vegna Atlantshafsins við lýðræðisvæntingar stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi. 

Sakar Hvít-Rússa um stalínisma

Í tilefni þessara samræmdu aðgerða lýsti Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, því yfir í dag að stalínismi og ríkis-hryðjuverkastarfsemi ætti ekki heima á 21. öldinni. Lukashenko, sem verið hefur við völd í Hvíta-Rússlandi, hefur lítt látið gagnrýni Vesturlanda á sig fá til þessa. 

Gabrielius Landsbergis , utanríkisráðherra Litháens, greindi þó frá því á fundinum í dag að Hvít-Rússar virtust svara refsiaðgerðunum með því að senda hælisleitendur, einkum frá Írak og Sýrlandi, yfir landamærin. Straumurinn væri orðinn slíkur að Litháar kynnu að þurfa aðstoð annarra Evrópuþjóða til að glíma við vandann.