Öll skynfærin nærð í færanlegu gufubaði

Mynd: Sumarlandinn / RÚV

Öll skynfærin nærð í færanlegu gufubaði

21.06.2021 - 10:53

Höfundar

Hafdís Hrund Gísladóttir segir að fólk upplifi alsælu í fargufunni Rjúkandi, þar sem hún býðir upp á gufugusuathafnir í sérhönnuðu hjólhýsi.

Fargufunum kynntist Hafdís Hrund þegar hún stundaði sjósund í Danmörku. Þar var hægt að bregða sér í gufubað við ýmsar aðstæður, í fjörum eða við bryggjur.

Hún hefur að síðustu boðið upp á athafnir í færanlegu gufubaði á hjólum, sem fengið hefur nafnð Rjúkandi. „Þarna gerast góðir hlutir þar sem fólk getur hitað sig eftir sjóbaðið.“

Gufan nær allt að 90° hita og fer athöfnin fram í þremur lotum, með tónlist og ilmkjarnaolíum, þar sem fólk er hitað vel upp og kælt á milli.

„Þetta er rútína, tíu mínútur, sjórinn, tólf mínútur, sjórinn, korter, sjórinn,“ segja baðgestirnir Klara Rut og Helena. „Það er heilun í því líka. Öll skynfærin eru einhvern veginn nærð og maður kemur endurnærður inn.“

Hafdís heldur úti fargufunni allt árið um kring og segir að upphaflega hafi hún verið hugsuð sem vetrarathöfn. Hún hefur ferðast um landið með hana og alls staðar hefur henni verið vel tekið.

„Það eru allir svo glaðir. Þessi vagn er gleðisprengja,“ segir hún. Fólk sem sé alls ekki hrifið af gufuböðum komi út úr vagninum sem breyttar manneskjur. „Það er svo rosalega glatt þegar það kemur út og upplifir alsælu þarna inni.“

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bjóða þeim að sauma sem eiga enga saumavél

Tónlist

Tenórinn finnur malarastúlkuna innra með sér

Leiklist

Strákar feimnari við að sýna áhuga á dansi

Menningarefni

Sveifla sverðum eftir leiðbeiningum úr gömlum handritum