Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Írönsku kjarnorkuveri lokað af tæknilegum orsökum

21.06.2021 - 06:33
epa07687222 (FILE) - A general view of the Iranian nuclear power plant in Bushehr, southern Iran, 21 August 2010 (reissued 01 July 2019). According to Iranian media on 01 July 2019, Iran has passed the limit on its stockpile of low-enriched uranium by exceeding of 300kg that was set in a landmark 2015 nuclear deal made with world powers. The International Atomic Energy Agency (IAEA) said it will file a report.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
Kjarnorkuverið í Bushehr í Suður-Íran Mynd: EPA-EFE - EPA
Starfsemi Bushehr kjarnorkuversins í Íran hefur verið stöðvuð tímabundð af tæknilegum orsökum. Það hefur því látið af rafmagnsframleiðslu meðan á lokuninni stendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vefsíðu kjarnorkustofnunar íranska ríkisins í gær. Þar sagði einnig að nokkra daga taki að leysa vandann, án þess að hann væri útskýrður frekar.

Íranir eru því hvattir til að draga úr orkunotkun sinni á álagstímum yfir daginn. Framkvæmdir hófust við kjarnorkuverið árið 1975 þegar þáverandi stjórnvöld sömdu við þýsk fyrirtæki um byggingu þess. 

Eftir að  byltingin var gerð í Íran árið 1979 var öllum framkvæmdum slegið á frest. Sprengjum rigndi yfir svæðið í fyrsta Persaflóastríðinu 1980 til 1988 en árið 1995 var samið við Rússa um að ljúka byggingu versins. 

Verkið tafðist mjög af efnahagslegum, tæknilegum orsökum en Rússar afhentu Írönum verið, sem framleiðir þúsund megavatta orku, í september 2011. Þremur árum síðar var ákveðið að stækka það sem áætlað var að tæki tíu ár.

Nágrannar Írana við Persaflóann hafa lýst áhyggjum af öryggi Bushehr orkuversins og óttast að kjarnorkuslys geti orðið, ríði harður jarðskjálfti yfir á svæðinu.

Í apríl varð skjálfti sem mældist 5,9 stig að stærð án þess að verið skemmdist, að sögn stjórnvalda. Frá því í maí hafa iðulega orðið truflanir og stöðvun í raforkukerfi Írans sem hefur valdið neytendum áhyggjum og vanda.

Ástæður þess voru sagðir miklir hitar og aukin eftirspurn eftir rafmagni vegna leitar að rafmynt.