Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hlutafjárútboð Play hefst á fimmtudag

21.06.2021 - 21:49
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Hlutafjárútboð í nýja íslenska flugfélaginu Play hefst á fimmtudag og stefnir félagið að því að ná allt að 4,3 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Áætlanir Play gera ráð fyrir að tekjur þess gætu numið 25 milljón dollurum eða tæpum 3,1 milljarði króna á þessu ári, en að þær gætu margfaldast á næstu árum.  

Þær verði 170 milljón dollarar á næsta ári eða 21 milljarður, þær aukist svo ár frá ári og gætu orðið 509 milljón dollarar eða um 63 milljarðar króna árið 2025. Þá er gert ráð fyrir tapi á þessu ári en tæplega 500 milljóna króna hagnaði strax á næsta ári og árið 2025 verði hagnaðurinn rúmir 5,3 milljarðar króna. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu, þar segir þó að þessar forsendur gætu breyst mikið vegna markaðsaðstæðna.

Stefnt er að því að selja 143 þúsund sæti á þessu ári og að þeim fjölgi smátt og smátt og verði rúmlega tvær og hálf milljón árið 2025. Árið 2024 verði starfsmenn félagsins orðnir 545 og að það sama ár flytji Play fleiri en 440 þúsund ferðamenn til Íslands. Í kynningunni segir að félagið hafi tryggt sér leigu á þremur Airbus A320neo flugvélum í tíu ár. Slagorðið er: „Borgið minna, leikið ykkur meira!“ og í fyrstu verður flogið til Alicante, Barselóna, Berlínar, Kaupmannahafnar, Lundína, Parísar og Tenerife. Stefnan er svo sett á fyrsta flugið til Norður-Ameríku í apríl á næsta ári.