Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hertar aðgerðir gegn Hvítrússum ræddar á morgun

epa08289422 German Minister of Foreign Affairs Heiko Maas attends a joint press statement in Berlin, Germany, 12 March 2020. Foreign Minister of Bolivia Karen Longaric Rodriguez meets the German counterpart in Berlin and discussed on bilateral issues.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, kallar eftir breiðri samstöðu ríkja um að beita Hvíta Rússland frekari viðskiptaþvingunum. Þetta sagði ráðherrann í aðdraganda fundar Evrópusambandsins í Lúxemborg á morgun.

Á fundinum stendur til að ræða aukin viðbrögð við því þegar flugstjóri farþegaþotu Ryanair var þvingaður til lendingar í Minsk. Það athæfi hvítrússneskra stjórnvalda þann 23. maí síðastliðinn vakti mikla reiði í alþjóðasamfélaginu.

Alþjóðlegar flugreglur voru brotnar undir fölsku yfirskini þess að sprengja væri í þotunni svo Hvítrússum yrði mögulegt að handataka blaðamanninn Roman Protasevich og Sofiu Sapega unnustu hans sem voru um borð. 

Beinar aðgerðir gegn ráðamönnum 

Þegar hefur meðal annars verið ákveðið að evrópsk flugfélög lendi hvorki í Hvíta Rússlandi né fljúgi inn í lofthelgi landsins. Einnig var gripið til aðgerða sem snerta Alexander Lúkasjenka forseta beint, ásamt tugum annarra í valdakerfi landsins.

Þær ráðstafanir, frysting eigna og ferðatakmarkanir, verða formlega staðfestar á fundinum á morgun. Maas segir óhjákvæmilegt að beita enn frekari hörku, aðgerðirnar þurfi virkilega að bíta í efnahaginn.

„Við ættum að beina sjónum okkar að pottöskuframleiðslunni og orkugeiranum," segir Maas og bætir við að brýnt sé að svipta hvítrússnesk stjórnvöld möguleikanum á að gefa út og selja ríkisskuldabréf meðal ríkja Evrópusambandsins.

Framleiðsla á pottösku er ein helsta tekjulind Hvítrússa en hún er efnasamband Kalíns og karbónats sem meðal annars er notuð við framleiðslu á tilbúnum áburði, gleri og sápu.

AFP fréttaveitan hefur eftir evrópskum stjórnarerindreka að tryggja beri að vopn og annar búnaður verði ekki seld til Hvíta Rússlands. Það sé búnaður sem notaður sé til að halda aftur af mótmælum í landinu. 

Stjórnarandstöðuleiðtoginn útlægi, Svetlana Tikhanovskaya, ræðir við utanríkisráðherra Evrópusambandsins fyrir fund þeirra á morgun.