Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fundu „fallegustu og öruggustu“ leið kolefnisbindingar

21.06.2021 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Ný rannsókn leiðir í ljós að hægt er að nota sjó í stað ferskvatns við hina svokölluðu Carbfix aðferð til þess að breyta koltvíoxíði í berg. Nýdoktorinn Martin Voigt í jarðefnafræði leiddi rannsóknina síðustu þrjú ár undir handleiðslu Sigurðar Reynis Gíslasonar, jarðvísindamanns hjá Háskóla Íslands. Sigurður segir niðurstöðurnar stórmerkilegar fyrir kolefnisbindingu í framtíðinni sem er ein stærsta áskorun sem nú stendur frammi fyrir mannkyninu.

Niðurstöðurnar birtust í fræðiritinu Geochimica et Cosmochimica Acta.

Vatn of dýrmætt til að nota í bindingu koltvíoxíðs

Hingað til hefur fyrirtækið Carbfix fangað koltvíoxíð og leyst upp í ferskvatni, svo það verður súrt, og blandað með basalti sem leysir úr læðingi kalsíum, magnesíum og járn sem getur bundist koltvíoxíðinu og orðið að steini.

„Það sem þetta gerir að þegar við búum til eins konar sódavatn, eða kolsýrt vatn, er að við þurfum rosalega mikið af vatni. Á móti hverju tonni af koltvíoxíði sem við leysum upp með vatninu, þá þurfum við 25 tonn af vatni,“ segir Sigurður. 

„Ef við ætlum að fara að beita þessari aðferð úti um allan heim þá er vatnið svo dýrmætt að við getum ekki eytt því í að binda koltvíoxíð. Þess vegna kemur þessi hugmynd upp að gera tilraun, við þurfum að finna aðferð til að nota sjó í þetta ferli.“

Tæp 40 gígatonn af koltvíoxíði losuð árlega

Hann segir mikil tækifæri í að beita aðferðinni á Vestur-Indlandi, í Sádí-Arabíu, á Vesturströnd Bandaríkjanna og í Síberíu og Kamchatka þar sem eru stórir basaltflekar og víða aðkallandi þörf fyrir bindingu koltvíoxíðs. Basalt sem er algengasta bergtegundin á jörðinni þekur jafnframt allan hafsbotninn.

„Þannig að það lá mikið á að byrja á að sanna á rannsóknarstofu að þetta myndi heppnast.“ Næsta skref er að færa út kvíarnar í tilraunaverkefni næsta sumar á Reykjanesi við að dæla sjó í borholu með sama tilgangi.

„Þetta hefur mikla þýðingu bæði fyrir hugsanlega framtíð hérna á Íslandi í þessari aðferð en ekki síður ef við ætlum að gera þetta annars staðar í heiminum þar sem er miklu meiri losun á koltvíoxíði og þar sem er öskrað á mann að það þurfi lausnir og helst bara í dag,“ segir Sigurður en í dag losa jarðarbúar tæplega 40 gígatonn af koltvíoxíði á ári sem er nærri 100 milljónum tonna á dag.

Steinrennt koltvíoxíð ein öruggasta bindingin

„Carbfix er ekki eina aðferðin við kolefnisbindingu en við sem höfum unnið hvað mest að þessari aðferð segjum að þetta sé fallegasta aðferðin.

Norðmenn hafa verið að gera þetta í Norðursjó, þar fanga þeir koltvíoxíð úr jarðgasi og þjappa því saman og setja niður í örugg jarðlög. Menn eru alltaf svolítið hræddir um að það leki til yfirborðsins,“ segir Sigurður. „En steinrenningin er öruggasta aðferðin við að binda koltvíoxíð.“

Sigurður R. Gíslason og Eric H. Oelkers eru upphafsmenn Carbfix verkefnisins.