Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Forsendur til að draga enn úr höftum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Almannavarnir/Grímur Jón  - RÚV
Allar forsendur eru til þess að auka tilslakanir vegna faraldursins, að mati sóttvarnalæknis. Staðan hér á landi sé góð. Útbreiddur faraldur verði ekki en hópsmit geti komið upp hjá óbólusettum og gott að fara með gát.

Helmingur fullbólusettur

Kórónuveirusmitum fjölgar víða erlendis. Hér á landi gengur hins vegar vel um þessar mundir. Um helmingur landsmanna er fullbólusettur og um tveir þriðju hefur fengið eina sprautu. Þeim, sem hafa veikst af covid, verður boðin bólusetning fljótlega til að efla mótefni. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ánægður með árangur í bólusetningum. Almenningur hafi tekið þessu verkefni vel og bólusetningar virðist skila sínu og vernda vel gegn nýjum afbrigðum veirunnar. Nú þurfi bara að halda áfram á sömu braut og ná sem mestri þátttöku. 

Hjarðónæmi

Talsvert hefur verið rætt um hjarðónæmi og mikilvægi þess að ná því hér á landi. Sóttvarnalæknir telur því hafa verið náð. Hann bendir á að hjarðónæmi sé ekki ein tala, einungis sú mótstaða í samfélaginu sem komi í veg fyrir stóran faraldur. Þó sé enn möguleiki á smitum hjá óbólusettum og jafnvel litlum hópsýkingum hjá yngra fólki eins og dæmi séu um erlendis.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort öllum tólf til fimmtán ára verður boðin bólusetning. Nú er unnið að því að bólusetja fólk á þessum aldri með undirliggjandi sjúkdóma. Fylgst verður með reynslu af bólusetningum þessa aldurshóps erlendis og farið hægt í sakirnar.

 

Ólöf Rún Skúladóttir