Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ESB beinir spjótum sínum að bresku sjónvarpsefni

Mynd með færslu
 Mynd: The Crown

ESB beinir spjótum sínum að bresku sjónvarpsefni

21.06.2021 - 15:12

Höfundar

Evrópusambandið telur óviðeigandi hversu mikið af bresku sjónvarpsefni er í boði í löndum sambandsins eftir Brexit. Yfirburðastaða breskrar sjónvarpsframleiðslu sé ógn við markmið um „menningarlega fjölbreytni“ og sett er spurningarmerki við hvort hægt sé að flokka hana sem evrópska eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Nái nýtt frumvarp menntamálaráðherra fram að ganga gætu þessar áætlanir ESB haft áhrif á það efni sem Íslendingum hefur staðið til boða hjá efnisveitum og VOD-þjónustum.

Þetta sýna gögn sem lekið var til breska blaðsins Guardian.  

Reglur Evrópusambandins gera ráð fyrir að evrópsku sjónvarpsefni sé hampað í dagskrá sjónvarpsstöðva. Þá verður þriðjungur þess efnis sem boðið er upp hjá efnisveitum eins og Netflix og Amazon og VOD-þjónustum að vera evrópsk framleiðsla. 

Í umfjöllun Guardian kemur fram að breskt sjónvarpsefni hafi notið góðs af þessum kvótum en að nú telji stjórnarerindrekar Evrópusambandsins rétt að skoða hvort ekki þurfi að breyta þessu eftir Brexit. Þeir segja að sú yfirburðastaða sem breskt sjónvarpsefni hafi geti leitt til þess að framleiðsla frá fámennari löndum nái ekki augum og eyrum fólks. Og það geti ógnað markmiði Evrópusambandsins um menningarlega fjölbreytni.  

Guardian hefur eftir framleiðendum að verði breskt sjónvarpsefni ekki lengur flokkað sem evrópskt geti það reynst dýrkeypt. Það ráðist til að mynda af því hversu vel gangi að selja dreifingarétt í forsölu hvenær dýrar þáttaraðir eins og Downton Abbey og The Crown fara í framleiðslu.

Guardian segir að innan breska sjónvarpsgeirans hafi lengi verið óttast að Evrópusambandið myndi gera atlögu að þeirri stöðu sem breskt sjónvarpsefni hefur haft .  Stjórnvöld hafi ítrekað verið vöruð við að þessi staða kynni að koma upp eftir Brexit og að þetta hafi einfaldlega verið spurning um hvenær en ekki hvort.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, sagðist í samtali við fréttastofu ekki hafa heyrt af þessum áformum. „Fljótt á litið sé ég ekki hvernig slíkar mögulegar tilskipanir Evrópusambandsins komi til með að hafa bein áhrif á dagskrárstefnu og dagskrárframboð hér á landi.“

Öðru máli gæti gegnt um það framboð sem Íslendingum hefur staðið til boða hjá efnisveitum eins og Netflix og Amazon og VOD-þjónustum Vodafone og Símans.

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, lagði í apríl fram frumvarp um fjölmiðla þar sem innleiða á tilskipun Evrópuþingsins.  Veigamesta breytingin þar felst í lágmarkshlutfalli á evrópsku efni hjá fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni eftir pöntun. Samkvæmt frumvarpinu ber því að vera 30 prósent og evrópskt efni á að vera bæði sýnilegt og fjölbreytt.