Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eigur Apple Daily frystar - stefnir í að útgáfan hætti

21.06.2021 - 05:37
epa09281728 A woman buys a copy of Apple Daily newspaper at a news stand in Hong Kong, China, 18 June 2021. The pro-democracy newspaper made print-run of 500,000 for 18 June 2021, a day after Hong Kong’s national security police arrested five directors at the newspaper on suspicion of conspiracy to collude with foreign forces under the China-imposed legislation.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ólíklegt er að dagblaðið Apple Daily sem gefið er út í Hong Kong geti greitt starfsfólki laun og stendur því frammi fyrir því að útgáfu verði hætt. Kínversk stjórnvöld frystu eigur félagsins sem gefur blaðið út með heimild í öryggislögum sem sett voru á síðasta ári.

Jimmy Lai, eigandi blaðsins, var einn hinna fyrstu sem ákærðir voru á grundvelli laganna og situr nú bak við lás og slá. Lai sem er 73 ára getur átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann dæmdur fyrir glæpi á grundvelli öryggislaganna.

Aðalritstjóri þess og framkvæmdastjóri útgáfunnar eru í haldi eftir áhlaup öryggislögreglu á ritstjórnarskrifstofurnar í liðinni viku. Þeir eru ákærðir fyrir leynimakk við erlent ríki eða önnur utanaðkomandi öfl sem ógna öryggi kínverska ríkisins.

Það athæfi segja lögregluyfirvöld í Hong Kong að kalli á alþjóðlegar refsiaðgerðir. Þetta er í fyrsta sinn síðan öryggislögin voru sett að stjórnvöld beina spjótum sínum að fjölmiðlum í Hong Kong. 

Mark Simon, aðstoðarmaður Lais, segir frystingu eigna blaðsins gera því nánast ókleift að halda áfram starfsemi. Hann segir í samtali við CNN fréttastofuna að fjárskortur sé þó ekki vandamálið, enda eigi blaðið 50 milljónir dala í banka.

Vandinn sé sá að öryggisráðherrann og lögregla leyfi hvorki að blaðamönnum verði greidd laun sín né að birgjar fá greitt. AFP fréttaveitan hefur eftir Lam Man-chung aðalritstjóra Apple Daily að fyrirhugað sé að halda stjórnarfund útgáfunnar í dag þar sem næstu skref verði ákveðin.