
Eigur Apple Daily frystar - stefnir í að útgáfan hætti
Jimmy Lai, eigandi blaðsins, var einn hinna fyrstu sem ákærðir voru á grundvelli laganna og situr nú bak við lás og slá. Lai sem er 73 ára getur átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann dæmdur fyrir glæpi á grundvelli öryggislaganna.
Aðalritstjóri þess og framkvæmdastjóri útgáfunnar eru í haldi eftir áhlaup öryggislögreglu á ritstjórnarskrifstofurnar í liðinni viku. Þeir eru ákærðir fyrir leynimakk við erlent ríki eða önnur utanaðkomandi öfl sem ógna öryggi kínverska ríkisins.
Það athæfi segja lögregluyfirvöld í Hong Kong að kalli á alþjóðlegar refsiaðgerðir. Þetta er í fyrsta sinn síðan öryggislögin voru sett að stjórnvöld beina spjótum sínum að fjölmiðlum í Hong Kong.
Mark Simon, aðstoðarmaður Lais, segir frystingu eigna blaðsins gera því nánast ókleift að halda áfram starfsemi. Hann segir í samtali við CNN fréttastofuna að fjárskortur sé þó ekki vandamálið, enda eigi blaðið 50 milljónir dala í banka.
Vandinn sé sá að öryggisráðherrann og lögregla leyfi hvorki að blaðamönnum verði greidd laun sín né að birgjar fá greitt. AFP fréttaveitan hefur eftir Lam Man-chung aðalritstjóra Apple Daily að fyrirhugað sé að halda stjórnarfund útgáfunnar í dag þar sem næstu skref verði ákveðin.