Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ábendingar um falskar heimsóknir til að lesa af mælum

21.06.2021 - 22:26
Merki Seltjarnarness við Sæbraut.
Vinsælt er að ganga og hjóla frá Eiðisgranda til Seltjarnarness. Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Seltjarnarnesbær varaði íbúa við því á Facebook-síðu sveitarfélagsins í dag að hleypa inn meintu starfsfólki Hitaveitunnar til þess að lesa af hitaveitu- eða rafmagnsmælum, án þess að ganga úr skugga um að starfsfólkið hefði viðeigandi skírteini. María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri samskiptasviðs bæjarins, segir að bærinn hafi fengið ábendingar um óprúttna aðila sem segjast vera frá Hitaveitunni til að komast í stigaganga fjölbýlishúsa og stela úr geymslum.

Í tilkynningunni segir að um þessar mundir sé enginn starfsmaður á vegum Seltjarnarnesbæjar á ferðinni að lesa af hitaveitumælum og að starfsmenn bæjarins séu alltaf auðkenndir með merktum fatnaði og með skírteini um hálsinn. Starfsmenn á vegum Veitna sem sjái um lestur rafmagnsmæla séu einnig ávallt auðkenndir.

María segir að ekki hafi fengið staðfest hjá lögreglu að innbrot hafi verið tengd við fólk undir fölsku flaggi, en að vegna þeirra ábendinga sem hefðu borist, og fjölda innbrota í geymslur, hefði þótt rétt að vara íbúa við. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV