Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfir hálf milljón látin af völdum COVID-19 í Brasilíu

epa08380977 People attend a funeral at a mass grave at the Nossa Senhora Aparecida cemetery in Manaus, Brazil, 23 April 2020. The new section of the cemetery was opened amid a sharp rise in COVID-19 victims.  EPA-EFE/RAPHAEL ALVES  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: epa
Yfir hálf milljón Brasilíumanna hefur nú fallið í valinn af völdum COVID-19 en aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látist af völdum sjúkdómsins. Heilbrigðisráðherra landsins greindi frá þessu á Twitter.

Í tísti Marcelo Queiroga, heilbrigðisráðherra Brasilíu, segir „500 þúsund líf hafa glatast vegna heimsfaraldursins sem skekur Brasilíu og allan heiminn.“ Hann lofar að hraða bólusetningum í landinu.

Nýjustu tölur brasilíska heilbrigðisráðuneytisins sýna að 500.800 séu nú látin í landinu af völdum sjúkdómsins, þar af 2.301 undanfarinn sólarhring.

Fyrr á árinu glímdu Brasilíumenn við aðra bylgju faraldursins en nú bendir flest til að sú þriðja sé skollin á enda fjölgar smitum mjög. Sérfræðingar telja fjölda látinna vanmetinn en í vikunni létust daglega um tvö þúsund að meðaltali.

Leita þarf aftur til 10. maí til að sjá viðlíka tölur en sextíu prósent andláta af völdum COVID-19 í landinu hafa orðið á þessu ári.

Fiocruz, þarlend rannsóknarstofnun í læknavísindum, álítur að ástandið geti enn versnað á komandi vikum og mánuðum enda nálgast vetur á suðurhveli jarðar.

Sérfræðingar hafa sömuleiðis þungar áhyggjur af útbreiðslu meira smitandi afbrigða veirunnar og hve bólusetningar ganga hægt í landinu. Eins er andstaða Jair Bolsonaro forseta við forvarnaraðgerðir á borð við grímunotkun og samkomutakmarkanir þyrnir í augum heilbrigðissérfræðinga.

Marcelo Queiroga heilbrigðisráðherra segist þó vinna hörðum höndum að því að allir landsmenn fái bóluefni sem fyrst svo snúa megi þróuninni við.