Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Svifvængjaflugmaður í vandræðum á Búrfelli

20.06.2021 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út skömmu eftir klukkan 13 í dag eftir að tilkynning barst um svifvængjaflugmann í vandræðum í Þjórsárdal.

Flugmaðurinn hafi lent í vandræðum á Búrfelli og var slasaður. Töluverður viðbúnaður er vegna slyssins og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út ásamt sjúkraflutningamanna frá Suðurlandi.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru viðbragðsaðilar komnir á vettvang um klukkan hálf þrjú.

Þyrlulæknir og áhöfn þyrlunnar hlúa að þeirri slösuðu og munu flytja hana til Reykjavíkur.

Davíð segir að aðkoma hafi verið góð. Björgunarsveitarfólk hafi getað keyrt á breyttum jeppum upp Búrfellið en flugmaðurinn var nærri toppi fjallsins. Þá gat þyrla Landhelgisgæslunnar lent nærri slysstaðnum. Aðstæður hafi þá verið með besta móti.

Andri Magnús Eysteinsson