Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að enn verði saumað að réttindum hinsegin fólks

20.06.2021 - 19:20
Mynd: EPA-EFE / PAP
Fjölmennustu mótmæli hinsegin fólks í sögu Póllands fóru fram í Varsjá um helgina. Mótmælendur óttast að enn verði saumað að réttindum hinsegin fólks í landinu.

„Hér með býðst ég til að halda þennan viðburð því þjóðfélagið á það inni hjá borgarstjóra. Ég stend hér aftur og ber vitni um að við stöndum ávallt með minni máttar, þeim sem verða fyrir árásum, sem aðrir reyna að jaðarsetja. Að vera hér er skylda mín sem fulltrúa stjórnvalda.“

Með þessum orðum ávarpaði Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár jafnréttisgöngu í borginni í gær. Þúsundir komu saman til að mótmæla stefnu stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. 

Vilja flytja úr landi

„Þetta eru vonbrigði, sorg, eftirsjá og hjálparleysi. Mörg okkar vilja flytja frá Póllandi. Ég velti líka fyrir mér að flytja til útlanda með maka mínum því ekkert hefur breyst í öll þessi ár,“ segir Rafal Wojtczak, talsmaður jafnréttisgöngunnar.

Forseti landsins, Andrzej Duda, hefur sagt hinsegin hugmyndafræði verri en kommúnisma og en hann hefur barist fyrir ýmsum lagabreytingum sem hefta frelsi hinsegin fólks. Samkynja pör mega til dæmis hvorki ganga í hjónaband né ættleiða börn í Póllandi.  

Óttast sambærilega þróun og í Ungverjalandi

„Staða LBGT+ samfélagsins í Póllandi hefur versnað. Nú erum við útskúfuð og það má sjá í hverjum kima lífsins. Við megum ekki lifa eðlilegu lífi, við höfum engin réttindi í Póllandi, en samt erum við hér, fjölmennt samfélag í landinu,“ sagði Marta Blaszczyk, ein þeirra sem tók þátt í mótmælunum. 

Mörg óttast að enn verði saumað að réttindum hinsegin fólks í Póllandi. Ekki minnkuðu áhyggjur þeirra þegar forsætisráðherra nágrannaríkisins Ungverjalands, Victor Orban, stóð fyrir lagabreytingu í síðustu viku. Breytingin bannar sýnileika hinsegin fólks í kennslu- og sjónvarpsefni fyrir börn. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV