Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jóhann felldi Silju Dögg úr öðru sætinu

Mynd með færslu
Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hreppti annað sætið í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Hann hafði þar betur í baráttunni við Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmann og Daða Geir Samúelsson sem einnig sóttust eftir öðru sætinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sóttist einn eftir efsta sæti listans og fékk það.

Silja Dögg hefur setið á þingi fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi frá árinu 2013. Silja þakkaði fyrir stuðninginn í samtali við fréttastofu og tilkynnti  um tímamót. Hún hafi ákveðið að þiggja ekki þriðja sætið á listanum og hverfa af Alþingi.

Jóhann Friðrik sagðist í samtali við fréttastofu verið afar þakklátur fyrir stuðninginn. Hann hefði vitað fyrirfram að á brattann yrði að sækja þar sem Silja Dögg hefði verið öflugur þingmaður fyrir flokkinn í átta ár. Hann sagði að niðurstaðan kæmi sér pínu á óvart. Hann sagðist gera ráð fyrir því að hætta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar til að geta helgað sig þingmennskunni. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV