Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hafa beðið í sjö mánuði eftir viðbrögðum ráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna segjast engin svör hafa fengið frá heilbrigðisráðherra þrátt fyrir ítrekaðar bréfaskriftir síðastliðna sjö mánuði. Skýrsla sem unnin hafi verið að beiðni heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag leghálsskimana, hafi ekki skilað óháðu áliti, segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna.

„Okkur finnst að skýrslan hafi ekki skilað því áliti sem beðið var um, þ.e.a.s. óháðu áliti sem fór yfir alla þætti málsins,“ segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna. 

Aðeins sé talað við þá sem sjá um framkvæmdina nú en þeir hafa sætt gangrýni. Hvorki sé leitað sjónarmiða kvenna sem eru skimaðar né heilbrigðisstarfsfólks. 

„Og það hlýtur að gefa skakka mynd af þeirri niðurstöðu sem maður fær eins og okkur finnst skýrslan sýna,“ segir Aðalbjörg.

Þá hafa læknarnir áhyggjur af öryggi sjúklinga. Aukin hætta sé á mistökum því nú séu íslenskum kennitölum á sýnum breytt handvirkt í danskar og aftur til baka. 

„Og það er kannski eina helsa spurningin sem maður ætti að spyrja sig: Af hverju er verið að gera leið þessara sýna flóknari en hún þarf að vera?,“ spyr Aðalbjörg.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af heilbrigðisráðherra í morgun.

Ykkar gagnrýni, hvernig hefur heilbrigðisráðherra svarað ykkur?

„Það er auðvelt að svara því: hún hefur ekkert svarað okkur. Við höfum ítrekað sent henni bréf, sent opin bréf í fjölmiðlum til þess að sjá hvort við fengjum svar þá m.a.s. Okkur er ekki svarað,“ segir Aðalbjörg.

Er langt síðan þið fæðinga- og kvensjúkdómalæknar fóruð að reyna að ná tali af heilbrigðisráðherra um þessi mál?

„Já, 13. desember sendum við henni bréf það sem við vörum við að ferlið væri illa undirbúið,“ segir Aðalbjörg. Ferlið breyttist 1. janúar sl. með því að skimanir færðust frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar sem sendir sýnin til Danmerkur til greiningar.