Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Þórdís lagði Harald

20.06.2021 - 12:14
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún ætlar að ræða við Harald Benediktsson síðar í dag en Haraldur gaf það út fyrir prófkjörið að hann myndi ekki taka annað sætið á listanum. 

Afhending síðustu sendingarinnar af bóluefni AstraZeneca til Íslands tefst að líkindum. Sendingin átti að koma á fimmtudaginn. Seinni bólusetning með efninu frestast því um viku. 

Fjöldi Brasilíubúa mótmælti um helgina aðgerðaleysi forseta landsins gegn kórónuveirunni. Hálf milljón hefur nú látist úr sjúkdómnum þar í landi og bólusetningar ganga hægt. 

Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna hefur síðastliðna sjö mánuði ítrekað gert athugasemdir við að leghálssýni séu send til Danmerkur til greiningar. Formaður félagsins segist engin svör hafa fengið frá heilbrigðisráðherra.

Ein þeirra sem ýtti undir samsæriskenninguna Italygate var Michelle Edwards, áður Ballarin, sem hugðist endurreisa WOW. Kenningin barst alla leið í Hvíta húsið.

Armenar ganga að kjörborðinu í dag. Forsætisráðherra landsins vonast til að endurnýja umboð sitt en viðurkennir að hafa gert mistök í stríði við Asera um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh. 

John Bercow, fyrrum forseti neðri málstofu breska þingsins, er genginn til liðs við Verkamannaflokkinn. Hann segir Íhaldsflokkinn undir stjórn Borisar Johnson popúlískan flokk sem daðri á stundum við útlendingaandúð. 

Reykvíkingur ársins 2021 hlýtur nafnbótina fyrir baráttu sína gegn tyggjóklessum á götum borgarinnar.
 

Andri Magnús Eysteinsson