Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fornfrægir textar fá á sig hrikalegri mynd

Mynd: Kelly Davidson / Nina MacLaughlin

Fornfrægir textar fá á sig hrikalegri mynd

20.06.2021 - 09:00

Höfundar

Þegar goðsögur Óvíds eru sagðar út frá sjónarhorni kvennanna blasir við hrikalegt ofbeldi sem er greinilega kerfisbundið, segir Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi um Vaknaðu, Sírena. Óvíd endursunginn eftir blaðamanninn Ninu MacLaughlin.

Gauti Kristmannsson skrifar: 

Fyrir um þrjátíu árum var ég nýfluttur til Þýskalands til að stunda nám og ég og kærastan mín vorum í einhverjum erindagjörðum í borg einni og hún ákvað að leggja bílnum í bílastæðahúsi. Þau voru ekki mörg í Reykjavík á þeim tíma og ég hafði lítið sem ekkert notað þau svo ég lyfti aðeins brúnum þegar við ókum inn og við hliðina á stæðum fyrir fatlaða voru allmörg stæði merkt „Frauenplätze“, kvennastæði. Þau voru næst útgöngum og vel upp lýst og ég skildi þetta betur þegar hún skýrði það fyrir mér. En líkast til skildi ég það ekki til fullnustu þá, og gerði ekki fyrr en fyrir nokkrum árum, hélt ég. Rækasta birtingarmynd þessa skilningsleysis míns og margra kynbræðra minna, grunar mig, kom fram í könnun sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir birti í Stundinni fyrir skömmu og var í tveimur dálkum; annar um þær ráðstafanir sem konur gera til að forðast ofbeldi og nauðganir þegar þær fara út á lífið og hinn yfir þær ráðstafanir sem karlar gera af sömu sökum. Öðrum megin langur listi, hrollvekjandi listi, hinum megin tabula rasa.

Það kviknaði á öðru slíku skilningsljósi hjá mér þegar ég las bókina sem hér er undir, Wake, Siren. Ovid Resung, eða Vaknaðu, Sírena. Óvíd endursunginn. Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Nina MacLaughlin tekur sér fyrir hendur í þessari bók að endurrita Ummyndanir Óvíds, klasskískt tvö þúsund ára kvæði, sem hefur verið miðlægt í vestrænni menningu mestallan þann tíma. Upprunalegt kvæði Óvíds er á tólfta þúsund línur og fjallar um ummyndanir manna og guða fornaldar og er einn mesti fjársjóður goðsagna sem til er. Enda hefur þetta kvæði verið þýtt á heimsmálin oft og mörgum sinnum, það var til að mynda með fyrstu bókum sem birtust í enskri þýðingu úr prentsmiðju

Williams Caxtons árið 1480. Heildarþýðing Kristjáns Árnasonar á íslensku kom hins vegar ekki út fyrr en árið 2009 og er magnað verk að lesa eins og ég reyndi að lýsa í ritdómi hér í Víðsjá það sama ár. Verkið snýst um goðsögur Grikkja og Rómverja, eða eru nokkurs konar þýðing eða endurritun á goðsögum hinna fyrrnefndu á latínu. Goðsögur fjalla um forsögulega hluti, og mikið um samskipti guða og manna, tilurð og jafnvel endalok heimsins. Þær koma upprunalega úr munnlegri arfleifð og bera sterk einkenni margendursagðra sagna.

Það er því engin goðgá að ungur kvenhöfundur eins og MacLaughlin taki sér fyrir hendur að endurrita Óvíd einu sinni enn, en það hafa þau mörg gert hingað til. Það sem vekur eftirtekt er hvernig hún hreinlega ummyndar þennan fornfræga texta með skáldlegum tökum og einni mjög mikilvægri breytingu á sjónarhorni. Hún vakti líka eftirtekt mína á því um hvað sögurnar fjalla í raun og veru um, ofbeldi og nauðganir í röðum. Árið 2009 las ég þessar goðsögur sem skemmtisögur um yfirskilvitlegar verur, þótt raunar væri ofbeldið fullkomlega skýrt í textanum. En þegar MacLaughlin breytir sjónarhorni þriðju persónu í frumtextanum í fyrstu persónu kvennanna, sem um ræðir hverju sinni, blasir við allt önnur mynd, hrikalegt ofbeldi sem er greinilega kerfisbundið og það sem meira er, það er ekki lengur hægt að horfa fram hjá menningarlegum raunveruleika þess. Með því á ég við að þessi mikla arfleifð, sem hefur verið margendurtekin á mörgu formi í okkar menningu, á áreiðanlega sinn þátt í því hvernig við hugsum um þessi málefni, hvernig við normalíserum þau, ef svo má að orði komast.

MacLaughlin endurritar ekki sögurnar með svo einföldum hætti að skipta einungis um persónusjónarhorn, hún tekur sögurnar inn í nútímann, bæði hvað tungumál og sviðsetningar varðar. Persónurnar ummyndast samt eins og í upprunasögunum, konur á flótta frá óðum Júpíter breytast í tré eða fugla til að komast undan ofbeldisguðinum. Afbrýðisöm eiginkona hans refsar sumum þeirra með því að breyta þeim kónguló eða eitthvað annað, fýsn hans er þeim að kenna. Höfundurinn heldur þessum yfirnáttúrlegu ummyndunum frumtextans og það gengur fullkomlega upp þrátt fyrir þessa „nútímavæðingu“ textans. Það var raunar spennandi verkefni og skemmtilegt að bera saman þýðingu Kristjáns við þessa endurritun, því þannig sá ég hversu vel þessi ummyndun á verkinu tókst.

Goðsögur Óvíds taka líka á fjölmörgum þeirra hluta sem til umræðu eru í dag um kynvitund og kyngervi. Tíresías, sem verið hafði bæði kona og karl, er spurður af guðahjónunum Júpíter og Júnó hvort kynið njóti kynlífs betur og svarar auðvitað rangt með þeim afleiðingum að hann er blindaður, en fær samt hæfileikann til að vera forspár í sárabætur. Salmakis og Hermafródítus renna saman í eina tvíkynja veru og þar fram eftir götunum. En meginþemað er samt fýsn karla og einkum guða eftir kynlífi og ummyndun er oft eina undankomuleið kvennanna. Meira að segja eru kaflar um sifjaspell, svo að allt sem hefur verið í umræðu undanfarinna ára og áratuga hafði verið orðað fyrir löngu með einhverjum hætti í minnst tvö þúsund ára goðsögum.

En ummyndunin er kannski goðsöguleg skýring á því áfalli sem kynferðisofbeldi veldur og breytingunni sem verður á fórnarlömbunum. Ég var djúpt snortinn af sögunni um Syrinx sem satýrinn Pan reyndi að komast yfir og þegar hún komst ekki lengra breyta systur hennar, vatnadísirnar, henni í reyr, reyrstangir sem Pan slítur upp og bindur saman í flautuna sem nafn hans er kennt við og endurvarpar sársauka dísarinnar í hverjum tóni.

Sagan um Medúsu er sérstaklega átakanleg, hún þessi gorgóna, konan með slönguhárið, hverrar augnaráð breytti mönnum í stein og Perseifur afhöfðaði svo hetjulega. MacLaughlin tekur fyrir í þessari frásögn vel fyrir hversu miklu máli skiptir hver segir söguna og hvernig. Ég man eftir Medúsu frá barnæsku, átti bók um hetjudáð Perseifs með myndum af honum, tígulegum með höfuð ófreskjunnar í hendinni, óhugnanleg kvenmynd að sönnu. Óvíd eyðir mestu púðri í sínum texta í hetjudáð Perseifs, og á einum stað er Perseifur sjálfur að gorta af henni við gest nokkurn, sem bendir honum kurteislega á að Medúsa hefði verið „hin fríðasta sýnum og eftirsóknarverð í augum margra biðla“ og að „konungur sjávardjúpsins Neptúnus“ hefði „flekað hana í hofi Mínervu“. Gyðjan vildi hefna fyrir þessi helgispjöll og breytti fögru hári Medúsu í slöngur, fórnarlambinu var sem sagt refsað fyrir að hafa verið nauðgað. MacLaughlin snýr frásögninni við með sjónarhorni Medúsu sem segir að hún alls ekki verið „flekuð“ heldur nauðgað og hamrar með miklum þrótti á þessu. Þetta er afar kraftmikil frásögn sem hrærir upp í öllu minni mínu um þessa frægu gorgónu, sem hefur verið skelfileg persónugerving hins illa kvenkyns fyrir kvenhatara um aldir.

Lokasagan á undan skáldlegri hugleiðingu höfundarins, „After Ovid“, er svo nýr snúningur á sögunni um Orfeif og Evrýdíku sem galopnar myndina af ofbeldismanninum og listamanninum sem elskaður er af konu. Skemmst er frá því að segja að manni fellur allur ketill í eld við lesturinn á þessum endursungnu Ummyndunum Óvíds, maður hélt að maður vissi svo vel og skildi allt, en fær hreinlega yfir sig ískalda vatnsgusu eins og maður verið hafi í roti. Og líkast til er það hárrétt