Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eru við það að missa bústaðinn undir hraun

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Afkomendur bænda í Ísólfsskála skammt austan Grindavíkur harma það að missa líklega jörðina undir hraun. Stöðugt rennsli er á hrauninu í Nátthaga þaðan sem stutt er í Suðurstrandarveg og Ísólfsskála. 

Hraun hefur runnið jafnt og þétt frá eldstöðinni á Reykjanesskaga síðustu daga. Það hefur hins vegar að mestu runnið undir yfirborði storknaðs hrauns og því farið nokkuð leynt. En í gærkvöldi ákvað eldgosið að breyta til, sýna sig betur því hraunið fór að buna í Meradalir og niður í Nátthaga í opinni hraunrás.

Stutt er þangað til hraunið finnur sér leið úr Nátthaga og það gæti verið innan hálfsmánaðar sem það fer að renna út á Suðurstrandarveg. Rétt neðan við veginn er jörðin Ísólfsskáli.

„Því miður eru nokkrar líkur á því að jörðin Ísólfsskáli fari undir hraun. Þetta er auðvitað ömurleg staða en það en það gæti verið erfitt að koma í veg fyrir það eða sjá fram á annað en að það gæti gerst,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

Ísólfsskáli var bújörð allt frá aldamótunum nítján hundruð þar til fyrir um tuttugu árum. Núna dvelja afkomendur bænda þar á sumrin og í fríum. 

Hjónin Valur Helgason og Harpa Guðmundsdóttir hafa átt sumarbústað á jörðinni í um 25 ár. Valur er einn af afkomendum bænda sem bjuggu á jörðinni. Sigrún Guðmundsdóttir, dóttir Hörpu,  hugðist taka við bústaðnum en nú eru þau áform líklega að verða að engu. 

„Þetta er sælureiturinn okkar hérna, stutt frá Reykjavík, þægilegt að koma hingað og slaka á, fuglasöngur og sjór, bara þægilegt að vera hérna,“ segir Sigrún.

Hvernig er svona tilfinningin að kannski eruð þið bara að fara að missa þetta?

„Hún er ekki góð. Hún er það ekki. Ég eiginlega finn það meira núna þegar ég er að sjá hraunið vella svona fram. En ég reyni að hugsa ekki um það,“ segir Harpa sem gengur að hraunjaðrinum í Nátthaga á hverjum degi. Ganga styttist með hverjum degi og núna er það um hálftíma gangur frá Ísólfsskála.

„Mér finnst þetta svolítið erfitt. Þetta er búinn að vera afslöppunarstaðurinn minn undanfarin ár. Mér finnst þetta hræðilega tilhugsun að þetta sé hugsanlega síðasta sumarið. Ég held að börnunum mínum finnist þetta kannski jafnvel erfiðast af því að þau eiga svo rosalega miklar minningar hérna og erum bara búin að vera hérna í raun frá því þau fæddust,“ segir Sigrún.

Þannig að þið bíðið bara hérna átekta og vitið að hraunstraumurinn er koma hérna glóandi?

„Já, maður fær stundum þegar maður er kominn upp í rúm að fara að sofa á kvöldin, þá fer maður að hugsa: hvað var langt í glóandi hraunið? Við erum hálftíma að labba þangað uppeftir eins og staðan er núna. Þetta er ekki sú hugsun sem maður á að venjast að hafa glóandi hraun í bakgarðinum nánast,“ segir Sigrún.