Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ballarin ýtti undir „Italygate“ samsæriskenninguna

Michele Roosevelt Edwards í viðtali við Ingólf Bjarna Sigfússon á setri hennar í Virginíu í nóvember 2020.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV/Kveikur
Athafnakonan Michele Roosevelt Edwards, áður Michele Ballarin, sem hugðist endurreisa flugfélagið WOW Air, er ein af þeim sem sögð er af Washington Post hafa á undanförnum mánuðum gert samsæriskenningunni „Italygate“ hátt undir höfði. Samsæriskenningin er sögð hafa náð alla leið á borð fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

Samkvæmt samsæriskenningunni höfðu starfsmenn ítalsks hergagnaframleiðanda, í samstarfi við háttsetta yfirmenn innan leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, beitt gervihnöttum í eigu hersins til þess að breyta Trump-atkvæðum yfir í Biden-atkvæði og þar með haft áhrif á úrslit forsetakosninganna 2020.

Washington Post greinir frá því að bréf, þar sem þessi kenning var útlistuð, hafi verið skrifað á bréfsefni flugrekstrarfyrirtækisins USAerospace Partners, móðurfélags WOW en þar er Michele Edwards, áður Ballarin, stjórnarformaður.

Bréfið barst í Hvíta húsið

Bréfið var á meðal gagna sem birt voru af Bandaríkjaþingi í vikunni og kemur fram í umfjöllun Washington Post að Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hafi í desember síðastliðnum sent starfandi dómsmálaráðherra, Jeffrey Rosen, tölvupóst vegna bréfsins. Ballarin hefur neitað fyrir að hafa vitað um tilvist bréfsins.

Nokkrum vikum seinna sendi stofnunin Institute for Good Governance frá sér yfirlýsingu ítalsks lögmanns sem sagði að hakkari hafi viðurkennt þátt sinn í samsærinu gegn Trump. Í forsvari fyrir Institute for Good Governance er Michele R. Edwards.

Glæsihýsið North Wales

Fram kemur í umfjöllun Washington Post að stofnunin Institute of Good Governance sé skráð í Virginíu-fylki, líkt og USAerospace Partners. Stofnunin er í raun skráð til húsa í glæsilegu sveitasetri í Warrenton í Virginíu, 22 herbergja glæsihýsi sem ber heitið North Wales.

Nafn sveitasetursins North Wales kann að hringja einhverjum bjöllum hjá áhorfendum Kveiks en það var einmitt þar sem viðtal Kveiks við Michele Roosevelt Edwards var tekið, degi eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember í fyrra. Washington Post fjallar einmitt um viðtal Ingólfs Bjarna Sigfússonar og spurningar hans um húsið eftir að hafa fengið leiðsögn um það. Edwards greindi Kveik frá því að húsið væri nýtilkomið í hennar eigu og væri ekki til sölu þó svo að það væri skráð til sölu á internetinu. Þetta væri ekki leiguhúsnæði og að hún byggi í húsinu.

Sjá einnig: Huldukonan sem bjó í háloftunum

Washington Post ræddi við raunverulega eigendur hússins. Húsið var í eigu fyrirtækis David B. Ford sem lést í september síðastliðinn, WP ræddi við ónefnda ekkju Ford sem sagðist ekki þekkja Edwards og sagði, eftir að hafa séð upptöku af viðtali Kveiks, „Hún er í húsinu mínu. Af hverju er hún inni í húsinu mínu?“

Húsið var til sölu á þeim tíma sem viðtalið var tekið en Edwards neitaði að tjá sig um málið við Washington Post þegar eftir því var leitað.

Kenningin rakin til skrifa Capezzone

Talið er að samsæriskenninguna um „Italygate“ megi rekja til greinar ítalska blaðamannsins Daniele Capezzone í ítalska blaðið La Verita. Þar kom fram að teymi Donald Trump væri að rannsaka hvort að yfirmaður í bandaríska sendiráðinu í Róm hefði unnið með ítölskum hergagnaframleiðanda að því að hafa áhrif á forsetakosningarnar. Capezzone hefur sjálfur sagt að í ljós hafi komið að samsæriskenningin væri ekkert nema falsfréttir.

Maria Strollo Zack sem hefur unnið fyrir Repúblikana í Georgíu og kveðst vinkona Maríu Maples, fyrrum eiginkonu Donald Trump, er þá sögð hafa sagt Trump frá samsæriskenningunni í jólaboði í Mar-a-Lago í Flórída. Zack rekur samtökin Nations in Action sem gaf frá sér tilkynningu í byrjun árs þar sem sagt var frá því að samtökin hafi rannsakað kosningasvindl, í samstarfi við Institute for Good Governance og fundið sönnunargögn. Vinna þeirra hafi skilað langþráðum sönnunum fyrir því að samsæri gegn Bandaríkjunum hafi verið framkvæmt með aðkomu aðila um allan heim.

Í tilkynningunni var einnig að finna yfirlýsingu sikileyska lögfræðingsins Alfio D'Urso sem sagðist hafa vitneskju um ráðabruggið. Hakkari hafi viðurkennt fyrir dómara að hann hafi tekið þátt í að stela atkvæðum frá Trump að undirlagi starfsmanna bandaríska sendiráðsins í Róm. Verjandi umrædds hakkara hefur neitað þessu og segir hvorki sig né skjólstæðing sinn hafa heyrt um D'Urso fyrr en nú.

Zack berst enn fyrir málstaðinn

Þá var einnig að finna í tilkynningunni PDF skjal sem innihélt ítalska grein um samsæriskenninguna. Í gögnum sést að Michele R. Edwards er skráður höfundur PDF skjalsins.

Washington Post hefur eftir Mariu Zack að hún leitist enn eftir því að fá bandarísk stjórnvöld til að rannsaka málið. Það sé skylda stjórnvalda að tryggja að ekkert kosningasvindl hafi átt sér stað. Aðrir eru ekki eins vissir um ágæti kenningarinnar. Til að mynda sagði Richard Donoghue, yfirmaður í dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kenninguna vera algjöra þvælu í tölvupósti til yfirmanns síns Jeffrey Rosen eftir að hafa fengið bréfið frá stofnun Ballarin sent.

Andri Magnús Eysteinsson