Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Afturfætur fíls: Staða kvenna í þremur löndum

Mynd: Pexels / Pexels

Afturfætur fíls: Staða kvenna í þremur löndum

20.06.2021 - 08:30

Höfundar

Fyrir fjórum árum tók Melkorka Gunborg Briansdóttir viðtal við þrjár ungar konur frá mismunandi heimshornum til þess að fá innsýn í reynsluheim þeirra. Ein er frá Eistlandi, önnur frá Pakistan og sú þriðja frá Tælandi, en þar er hlutverki kvenna líkt við afturfætur fíls.

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar: 

Árið 2017 varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt í alþjóðlegri ræðukeppni í London þar sem mættust 48 ungmenni frá sex heimsálfum. Úr varð margfalt stækkaður sjóndeildarhringur, áhugaverðar samræður og ómetanleg vinátta. Sjaldan lendir maður í þeim aðstæðum að vera hluti af svo alþjóðlegum hópi ungs fólks sem talar ólík tungumál, aðhyllist ólík trúarbrögð og tilheyrir svo ólíkum menningarheimum, þar sem markmiðið er gagngert að ræða heimsmálin langt fram á nótt. 

Ég ákvað að spyrja þrjár vinkvenna minna úr keppninni um stöðu kvenna í heimalöndum þeirra, eina frá Eistlandi, aðra frá Taílandi og þá þriðju frá Pakistan. Þær eru allar um tvítugt og svörin lýsa persónulegu sjónarhorni þeirra. Viðtölin tók ég árið 2017, sem kann að virðast langt síðan í hinum hraða nútímaheimi, en er í raun ekki langur tími þegar stóru eilífðarmálin eru annars vegar. Önnur bylgja #metoo-faraldursins sem nú gengur yfir íslenskt samfélag hefur minnt okkur á hvað við eigum í raun langt í land í jafnréttisbaráttunni. Til að við gleymum heldur ekki því sem hefur áunnist, er gott að líta út fyrir landsteinana.

Við byrjum í Eistlandi. Fyrsti viðmælandi minn er Anna Marie Paabumets, sem í dag stundar nám í læknisfræði við háskólann í Tartu. 

Anna Marie segir að mikið hafi áunnist í jafnréttismálum í Eistlandi á síðustu tuttugu árum, nú taki konur virkari þátt í stjórnmálum og séu fleiri í æðstu valdastöðum samfélagsins en áður. Til dæmis er forseti Eistlands kona, sú fyrsta sem gegnir embættinu þar í landi og jafnframt sú yngsta. Stærsta hindrunin er þó launamunur kynjanna, en í Eistlandi er hann sá mesti í Evrópu.

Hún segir að margt megi bæta þegar kemur að samfélagsumræðu í landinu, hvernig almennt sé talað um konur. Athyglin beinist of oft að launamun kynjanna, en jafnrétti sé svo miklu meira en það. Málið snúist um uppeldi og staðla sem samfélagið býr til, litlar stelpur leiki sér að gervieldhúsum og strauborðum eins og þær séu að búa sig undir framtíðina, en litlir strákar fái byssur og bíla, því „þannig eigi það að vera.” Anna Marie minnist þess þegar amma hennar sagði við hana: „Anna, það er svo gott að þú kunnir að elda, eiginmaður þarf eiginkonu sem er fær í eldhúsinu.” 

Ég spurði Önnu hvort eistneskt skólakerfi innleiddi kynjafræðisjónarmið í kennslu, en þá sagði hún að þetta væri í fyrsta sinn sem hún heyrði orðið kynjafræði. Hún segir eistneskt samfélag hafa ákveðnar hugmyndir um hina fullkomnu konu: Hún sé í góðu formi en ekki of sterkbyggð, menntuð en ekki of metnaðargjörn, vingjarnleg en samt hlédræg, hláturmild en taki ekki of mikið pláss í samræðum.

Sem dæmi um femíníska fyrirmynd nefnir Anna eistneska ljóðskáldið Marie Under, sem var með fyrstu ljóðskáldum landsins til að skrifa hispurslaust um kynlíf í verkum sínum. Marie Under þótti sjálfstæð og frökk, skrif hennar stuðuðu marga og settu mikinn svip á eistneskar bókmenntir. Hún var tilnefnd til Nóbelsverðlaunanna hvorki meira né minna en átta sinnum, án þess þó að hljóta þau.

Annar viðmælandi minn er hin taílenska Rebecca Preen, sem nú í vor lauk námi í lögfræði og alþjóðasamskiptum við Háskólann í Sussex.

Taílenskar konur voru með þeim fyrstu í Asíu til að fá kosningarétt árið 1932. Aftur á móti segir Rebecca að síðan hafi ekki orðið miklar framfarir í Taílandi þegar kemur að réttindum kvenna. Kvenfrelsishreyfingin hafi gengið í gegnum hæðir og lægðir sem séu mjög háðar stjórnmálaástandi landsins, en lítill vafi leiki á því að Taíland sé karllægt feðraveldissamfélag, þar sem stjórn ríkisins hafi alltaf verið í höndum karla.

Taílenskt orðatiltæki vísar til kvenna sem „afturfóta fíls” - sem þýðir að þær gegni mikilvægu hlutverki á bak við tjöldin og styðji við bakið á karlmönnum. 

Til að konur geti notið jafnræðis í Taílandi segir Rebecca að fyrst þurfi að yfirstíga margar menningarlegar fyrirstöður. Í búddisma, til dæmis, segir að konur þurfi að endurfæðast sem karlmenn til að öðlast nirvana. Hún segir taílenskar konur líta á móðurhlutverkið sem háleitt takmark, og að eiginkonum sé skylt að vinna húsverkin á meðan eiginmennirnir vinna úti. Konur eigi að vernda og veita umhyggju, en það viðhorf endurspeglast í öðru gömlu orðatiltæki sem segir að góð kona „vakni fyrr og sofni seinna en eiginmaður hennar”. 

Rebecca segir að þrátt fyrir það orðspor sem fari af Taílandi, að ferðamannaiðnaðurinn þar sé nátengdur kynlífsiðnaði og vændi, séu viðhorf til kvenna almennt frekar íhaldssöm. Ekki þyki við hæfi að konur og karlar sýni væntumþykju og nánd opinberlega, og almennt sé ætlast til þess að konur séu hreinar meyjar þegar þær gifta sig. 

Þegar ég ræddi við Rebeccu árið 2017 voru fóstureyðingar ólöglegar í Taílandi, vegna þeirrar viðteknu skoðunar að með þeim væru konur hvattar til að drepa saklaus ungbörn og lifa lauslátara lífi. Þetta hefur þó breyst síðan, en fóstureyðing fram að tólftu viku meðgöngu hefur verið lögleg frá því í febrúar á þessu ári.

Þriðji og síðasti áfangastaðurinn okkar er Pakistan. Næsti viðmælandi minn er Taghrid Firdous, en í samtali mínu við hana kveður við annan tón.

Þegar ég spyr Taghrid út í reynslu hennar af réttindum kvenna í Pakistan nefnir hún þolendaskömmun, mannorðsárásir og heiðursmorð, en það eru hefndaraðgerðir, oftast morð, þar sem karlar drepa konur sér skyldar sem þeir telja hafa brotið gegn heiðri fjölskyldunnar. Taghrid segir að pakistanskir drengir velji sér fyrst háskólagráður, svo giftingarhringi. Stúlkur séu aftur á móti sýningargripir feðra sinna og konur aðeins viðurkenndar sem mæður, dætur, systur eða eiginkonur karlmanna. 

Taghrid tekur mjög sterkt til orða og segir: „Það skiptir engu máli hver þú ert, svo lengi sem þú ert líka eftirgefanlegur hnefaleikapúði sem karlmenn líta á sem eign sína.” Hún segir samfélagið í Pakistan eiga sér rótgrónar og formfastar hefðir, og að þegar hún berst fyrir réttindum sínum sé hún álitin óhlýðin. Hún hafi lært að láta aðeins slag standa þar sem raunveruleg ógn steðjar að henni, en vegna þess hve baráttan er sífelld hafi hún þurft að láta sumt sem vind um eyru þjóta. Margar pakistanskar konur vilji einfaldlega ekki breytingar, segir hún, þær þekki bara skortinn og séu ekki meðvitaðar um þau réttindi sem þær fara á mis við.

Taghrid tekur þó fram að hún sé í forréttindastöðu þar sem hún hefur hlotið menntun, en ólæsi í Pakistan er með því mesta sem þekkist í heiminum. Aðeins hluti vinkvenna hennar gengur í skóla, en þannig koma þær sér í mjúkinn hjá tilvonandi tengdaforeldrum. 

„Fékkstu slæma einkunn? Ekkert mál, þú giftir þig á endanum. Er streitan að ná yfirhöndinni? Hafðu engar áhyggjur, ég skal hafa samband við frænku í Ameríku. Fáum handa þér græna kortið.”

Slíkar setningar segist Taghrid hafa heyrt frá því að hún var barn, að maðurinn hennar eigi eftir að sjá um hana og að hennar eina hlutverk sé að annast hann. 

Hún segist aldrei hafa fengið kynfræðslu, það sé álitið skammarlegt að tala opinskátt um kynlíf. Fyrst þurfi að ráðast gegn því rótgróna viðhorfi ungra kvenna að þeirra helsti tilgangur sé að vera undirgefnar þjónustustúlkur karlmanna sem þær hafa aldrei hitt. Þá geti þær kannski nýtt rétt sinn til að segja nei og kynlíf orðið eitthvað sem konur geta notið, en ekki eitthvað sem þær eiga að beygja sig undir.

Í lokin spurði ég vinkonur mínar þrjár allar sömu spurningarinnar: Hvað er hægt að gera til að stuðla að jafnrétti kynjanna?

Byrjum á Önnu Marie frá Eistlandi. Hún segir að við þurfum að byrja innan frá. Það sé ekki bara undir karlmönnum komið að breyta því sem breyta þarf, heldur konum líka. Hún spyr: Hvað gerið þið dagsdaglega, konur, til að draga úr misrétti? Tjáið þið ykkur þegar þið verðið vitni að fordómum, hvetjið þið aðrar konur til að tjá sig?

Rebecca frá Taílandi segir að lykillinn sé að veita almenningi kynfræðslu. Það þurfi líka að valdefla konur svo að þær þurfi ekki að aðlagast forneskjulegum hefðum.

Mig langar að ljúka þessu innslagi á svari Taghrid frá Pakistan. Aðspurð hvað sé hægt að gera til að vinna að jafnrétti kynjanna segir Taghrid málið snúast um að gera það sem þú getur fyrir þá sem geta það ekki.