Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viltu elda eins og Marilyn Monroe?

19.06.2021 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Siegel Auction Galleries
Almúganum leiðist seint að fá að skyggnast inn í líf fræga fólksins, ekki síst inn í þeirra helgustu vé. Því má halda fram að matreiðslubækur, með tilheyrandi athugasemdum og inníkroti, séu með því allra persónulegasta og því fengur að kokkabókum stórstjarna, þá sjaldan sem slíkt innlit býðst á annað borð.

Matreiðslubækurnar hennar Marilyn

Nú hefur heldur en ekki hlaupið á snærið sem fýsir að vita hvað hinir ríku, frægu og fallegu elda ofan í sig og sína. Uppboðsfyrirtækið Siegel í New York hefur nefnilega boðað til uppboðs þann 22.júní næstkomandi og þar kennir ýmissa grasa. Innan um margs konar söguleg plögg og bréf verða nefnilega boðnar upp tvær matreiðslubækur úr fórum Marilyn Monroe heitinnar, en hún féll sviplega frá svo sem þekkt er í ágústmánuði 1962.

Sósublettir og handskrifaðir punktar

Annars vegar er um að ræða The New Fanny Farmer Boston Cooking-School Cook Book sem kom út árið 1951 og hins vegar The New Joy of Cooking í útgáfu frá 1953 en höfundar hennar eru þær Irma Bombauer og Marion Bombauer Becker. Báðar bækurnar skarta eyrnamerktum blaðsíðum hér og hvar, undirstrikunum og sósublettum, og margvíslegum handskrifuðum punktum og innkaupalistum frá hendi Marilyn sjálfrar, allt saman sterkar vísbendingar um uppáhaldsrétti stórstjörnunnar.

Áhugasömum má benda á að fyrirfram er búist við því að bækurnar, sem boðnar verða upp saman, fari á 50.000 til 75.000 Bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 6 til 9 milljónum íslenskra króna. Það kostar því skildinginn að skyggnast inn í líf leikkonunnar yfir hlóðunum.

Jón Agnar Ólason