Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Úrslitastund í Norðvesturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Tvö prófkjör fara fram í dag. Í Norðvesturkjördæmi er harður slagur um að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og barist er um annað sætið hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi.

Tveir berjast um efsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi, núverandi oddviti Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reyfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Úrslitin teljast til tíðinda, hver sem þau verða. Haraldur hefur sagt að ef hann hafni ekki í fyrsta sæti þiggi hann ekki sæti á listanum. Sú yfirlýsing olli nokkru fjaðrafoki innan flokksins og töldu margir að með þessu væri Haraldur að stilla flokksmönnum upp við vegg. Í öllu falli er hans pólitíska framtíð undir í prófkjörinu. Þórdís Kolbrún hefur ekki gefið út viðlíka yfirlýsingu en það væri óneitanlega sérstök staða ef sitjandi ráðherra og varaformaður flokksins tapar í baráttu um oddvitasæti.

Síðustu kjörstöðum verður lokað klukkan sjö í kvöld og verða atkvæði keyrð í Borgarnes þar sem þau verða talin. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn er von á fyrstu tölum um klukkan níu í kvöld.

Barist um þingsæti hjá Framsókn

Ekki er barist um oddvitasæti hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn á tvo þingmenn. Formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson sækist einn eftir fyrsta sætinu  en barist er um annað sætið. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður, býður sig aftur fram í annað sætið eins og Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Kosið er í lokuðu prófkjöri í dag og atkvæði talin á morgun. Úrsitin verða tilkynnt á Hótel Selfossi á morgun milli klukkan fjögur og fimm.

Magnús Geir Eyjólfsson