Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrettán sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð

Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær - RÚV
Heilsuvernd sagði í gær upp 13 starfsmönnum hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri. Forseti ASÍ óttast að yfirtaka fyritækisins á rekstrinum sé upphafið að einkavæðingarhrinu hjúkrunarheimilanna. Hún vill láta reyna á hvort uppsagnirnar standist lög. 

Töldu nauðsynlegt að fækka í starfsmannahópnum

Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í byrjun maí. Í viðtali við fréttastofu í apríl sagði Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins að engar kollsteypur yrðu í rekstrinum en það stefndi klárlega ekki í áframhaldandi taprekstur.

Í gærkvöldi greindi Vísir frá því að Heilsuvernd hefði sagt upp á þriðja tug starfsmanna og stjórnendur hygðust ráða aðra inn í þeirra stað á lægri kjörum.

Síðdegis sendi fyrirtækið frá sér fréttatilkynningu. Þar sagði að starfsmennirnir hefðu verið 13 og meðalaldur þeirra 54 ár. Nauðsynlegt hafi verið að fækka í starfsmannahópnum. „Þarna er að raungerast þar sem við vöruðum við, það er verið að segja upp fólki sem er með langan starfsaldur, langan lífaldur, það eru hafnar þarna greinilega hreinsanir,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. 

Vill skoða lögmæti uppsagnanna

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Drífa Snædal

Fyrir rúmu ári greindi Akureyrarbær frá því að ekki yrði gerður nýr samningur við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna í bænum. Sveitarfélagið hafði þá fengið nóg af því að greiða um einn og hálfan milljarð með rekstrinum á ári. Í vor bauð ríkið reksturinn út og þann 1. maí tók Heilsuvernd við honum. Drífa óttast að fleiri sveitarfélög ákveði að skila rekstrinum, að ríkið ráðist í fleiri útboð. „Við óttumst að þetta sé bara fyrsta skrefið í einkavæðingahrinu hjúkrunarheimila,“

Alþýðusamband Íslands hyggst skoða lögmæti uppsagnanna í ljósi þess að fólkið var ráðið inn sem opinberir starfsmenn. 

Hallarekstur árum saman

Flest hjúkrunarheimili hafa verið rekin með halla um árabil, forsvarsmenn þeirra segja daggjöld ríkisins ekki nægja,stutt er síðan Hrafnista sagði upp á fjórða tug starfsmanna af þeim sökum. Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið kemur fram að heimilin þurfi tæpa fimm milljarða til að ná lágmarksviðmiðum Landlæknis um hlutföll faglærðra og fjölda umönnunarklukkustunda á hvern íbúa.