Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Slakað á samkomutakmörkunum í Hollandi

epa09283734 Dutch Outgoing Prime Minister Mark Rutte during a press conference in the Hague, the Netherlands, 18 June 2021. The cabinet announces accelerated relaxation of the coronavirus measures.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Frá og með tuttugasta og sjötta júní næstkomandi verður slakað mjög á samkomutakmörkunum í Hollandi. Mark Rutte forsætisráðherra greindi frá þessu í dag.

Dansstöðum og næturklúbbum verður leyft að hefja starfsemi að nýju og veitingastaðir, söfn og leikhús mega taka á móti fleiri gestum en leyfilegt hefur verið um langa hríð. 

Grímuskylda verður afnumin að mestu að undanskildum almenningsfarartækjum, flugvöllum og öðrum stöðum þar sem ógerlegt er að gæta að fjarlægðarmörkum.

Sömuleiðis verður ekki takmarkað hversu margt fólk má safnast saman. Einungis er gerð krafa um að fólk geti haldið eins og hálfs meters bili á milli sín. 

Rutte sagði þessa ákvörðun marka þáttaskil og kveðst bjartsýnn á sumarið framundan. „Iðulega hef ég þurft að tilkynna ykkur um allt það sem ekki má. Núna getum við einbeitt okkur að því sem við megum og getum gert.“

Hann líkt og fleiri þjóðarleiðtogar í svipaðri stöðu hvatti til varkárni áfram enda sýndi reynslan að ekkert væri öruggt í baráttunni við COVID-19. „Nýtt afbrigði gæti alltaf sprottið upp og stungið okkur í bakið,“ sagði Rutte. 

Tilfellum hefur fækkað mjög í Hollandi, sem stjórnvöld þakka góðu gengi í bólusetningum.

Um 13 milljónir ríflega 17 mílljóna íbúa landsins hafa þegar fengið sprautu og stefnt er að því að hver einasti fullorðinn Hollendingur hafi fengið minnst einn skammt fyrir miðjan júlí. 

Næstum 1,7 milljónir manna hafa sýkst af COVID-19 í Hollandi frá því faraldurinn kom upp og yfir 27 þúsund látist af völdum sjúkdómsins.