Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Raisi fagnar sigri í forsetakosningum í Íran

epa09281831 Iranian presidential candidate Ebrahim Raisi greets the media after casting his vote in the presidential elections in Tehran, Iran, 18 June 2021. Iranians head to polls to elect a new president after eight years with Hassan Rouhani as head of state.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ebrahim Raisi telst réttkjörinn forseti múslímska lýðveldisins Írans en hann hlýtur um 62% greiddra atkvæða. Áður en úrslit lágu fyrir var Raisi hylltur sem sigurvegari jafnt af fráfarandi forseta og andstæðingum hans sem viðurkenndu ósigur.

Fjölmiðlar í Íran greindu frá niðurstöðunni skömmu fyrir klukkan sjö. Af þeim ríflega 28 milljónum atkvæða sem talin hafa verið hlýtur Raisi, sem er íhaldssamur klerkur og dómari, tæplega 18 milljónir. Alls eru um 59 milljónir á kjörskrá en ekki hefur verið tilkynnt um kosningaþátttöku ennþá. 

Núverandi forseti, sá hófsami Hassan Rouhani, óskaði þjóðinni til hamingju með val sitt á nýjum forseta fyrr í morgun án þess að tilgreina hver það væri.

Hann sagðist þó vita hver hefði hlotið nægilega mörg atkvæði til að teljast réttkjörinn. „Opinberar hamingjuóskir bíða betri tíma,“ sagði Rouhani.

Mótframbjóðendur Raisis, þeir Mohsen Rezai og Amirhossein Ghazizadeh-Hashemi óskuðu honum afdráttarlaust til hamingju með sigurinn og það gerði sá þriðji, Abdolnasser Hemmati, sömuleiðis. 

Rezai skrifaði á Twitter að hann vonaðist til að Raisi kæmi á sterkri og vinsælli ríkisstjórn sem gæti leyst þann vanda sem Íran glímir við. Nýr forseti tekur við embætti í ágúst næstkomandi. 

Fréttin var uppfærð klukkan 7:12.