Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraun gæti flætt á Suðurstrandarveg innan 2ja vikna

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Eldfjallafræðingur telur að hraun geti farið að renna út á Suðurstrandarveg innan hálfs mánaðar. Bæjaryfirvöld í Grindavík einbeita sér nú að því að koma í veg fyrir að gos geti runnið til Grindavíkur eða í Svartsengi því Suðurstrandarvegi verði ekki bjargað. 

Það er sama hvernig viðrar, alltaf laðar eldgosið á Reykjanesskaga að sér ferðamenn enda er gosið síbreytilegt. Nú hefur Nátthagi fyllst af hrauni. 

„Undanfarna daga hefur hraunið verið að hækka sig um metra á dag, réttrúman metra á dag,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þegar Fréttastofa kom í Nátthaga í dag var hraunið að feta sig eftir slóðanum sem fólk gengur og björgunarsveitarmenn aka eftir, á leið upp úr Nátthaga. Og hraunið var við það að ná hæsta punkti þaðan sem það kemst upp úr Nátthaga. 
 

 

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Ef það heldur þeim dampi þá eru tveir, þrír dagar þangað til það fer úr Nátthaganum. Þegar það fer út úr honum þá er lítil lægð fyrir framan Nátthagann sem þarf að fyllast áður en það getur haldið áfram í áttina að Suðurstrandarvegi. Það fer eftir því hvernig hraunið flæðir. Ef það er í einangruðum rásum þá getum við verið að tala um eina tvær vikur. En ef rásin er opin þegar hraunið fer út þá gæti hægst á því, þá eru þetta þrjár til sex vikur,“ segir Þorvaldur.

Það er brennisteinsfnykur hérna enda stutt hraunjaðarinn hérna í Nátthaga og það væntanlega örfáar vikur þangað til hraunið finnur sér leið héðan og yfir Suðurstrandarveg og út í sjó. 

Eftir mikil fundahöld var ákveðið í gær að reyna ekki að sporna gegn þessu. Kostnaðurinn myndi hlaupa á mörg hundruð milljónum og alls óvíst að aðgerðin myndi lukkast.

Af hverju er þetta að gerast svona hratt núna?

„Það sem hefur breyst í kvikunni sjálfri er að það hefur minnkað verulega magn díla í kvikunni, s.s. kristalla. Það sem þá gerist er að hún verður meira þunnfljótandi og flæðir auðveldar,“ segir Þorvaldur.

Yfirvöld í Grindavík einbeita sér þess í stað að því að vakta svæðið og huga að ferðamönnum.

„En þar fyrir utan erum við að hanna varnargarða til langrar framtíðar ef hraunið heldur áfram að renna í miklum mæli og þess vegna getur það runnið til norðurs í átt að Reykjanesbrautinni eða að mannvirkjum sem eru hérna til vesturs,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

Svona ýktustu spár, hvenær gæti hraun verið að streyma í átt að Svartsengi og Grindavík?

„Það er eiginlega ómögulegt að segja en menn hugsa svona þrjú ár fram í tímann núna,“ segir Fannar.

Hvað finnst þér líklegast að þetta gos standi lengi?

„Það getur náttúrulega endað á morgun en það getur líka staðið í áratugi. Mín tilfinning er að við séum að tala um einhver ár,“ segir Þorvaldur.