Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hljóðlát ævintýri í Þögluvík

Mynd: A Quiet Place / Paramount Pictures

Hljóðlát ævintýri í Þögluvík

19.06.2021 - 11:00

Höfundar

Upplegg A Quiet Place-myndanna snýst um skortinn á því sem við teljum sjálfsagt, segir Ásgeir H. Ingólfsson gagnrýnandi. Seinni myndin rími sterkar við samtímann.

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar:

Þegar maður þarf að gera útvarpspistil fjarri virðulegum hljóðverum Efstaleitis, pistil eins og þennan, þá er ein mesta áskorunin að finna þögnina. Sem er hægara sagt en gert. Maður finnur það aldrei betur en einmitt þegar maður leitar að þögninni að þessi heimur okkar er fullur af hávaða, og minnst af honum er náttúrulegur.

Umferðin er verst, en svo er líka alltaf einhver að bora, slá grasið, og jú, öllu náttúrulegri hljóð líka, háværar mannverur og hinn náttúrulegi óvinur upptökutækisins, vindurinn. Öll þessi hljóð sem maður er oftast ónæmur fyrir, þangað til þau skipta máli.

Þöglavík, A Quiet Place, bjó til heim þar sem við erum öll að berjast fyrir þögninni, og þar gat enginn flutt útvarpspistla, jafnvel það er hættulega mikill hávaði. Af því dularfull skrímsli hafa hertekið jörðina, staurblind en með ofurheyrn. Þau eru fljót að drepa allar manneskjur sem gefa frá sér minnsta hljóð, kannski af því þær eru að trufla skrímslin í að taka upp útvarpsþátt fyrir geimvarpið, hvað veit maður? Ósköp lítið raunar. Við fáum sáralítið að vita um þessar kynjaskepnur.

Við fáum þó að vita aðeins meira í upphafi framhaldsmyndarinnar sem bætir einfaldlega rómverska tákninu fyrir tvo aftan við titilinn. Þar spólum við aftur og sjáum þegar þær komu eins og loftsteinar út úr geimnum. Opnunarsenan er mikið og fjandi vel gert sjónarspil um þegar manneskjurnar flýja þessa óvætti í ofboði, áður en þær hafa átta sig á blindu þeirra og ofurheyrn.

Eftir að fyrri myndin sló rækilega í gegn hefur leikstjórinn þrefalt meiri pening á milli handanna fyrir framhaldið; sem þýðir einfaldlega að hann hefur efni á svona atriðum, hefur efni á bílaeltingarleikjum og fleiri tæknibrellum sem sýna geimverurnar dularfullu.

Sem er stundum kostur og stundum galli. Nýjar persónur þýða aðeins meira tal, af því ólíkt Abbot-fjölskyldunni eru persónurnar sem bætast við ekki altalandi á táknmáli. Þótt sannarlega séu flestar samræður í hálfum hljóðum.

Myndin heldur þó að mestu í það einfalda prinsipp sem gerði fyrri myndina svona magnaða; að minnsti hávaði geti verið banvænn. Það að kornabarn sé komið til sögunnar gerir það svo bara enn erfiðara að tryggja þögnina.

Sjálfum þótti mér heyrnarlausa unglingsstúlkan Regan áhugaverðasta persóna fyrri myndarinnar. Hér stígur hún næsta skref og er í ótvíræðu aðalhlutverki myndarinnar og leikkonan Millicent Simmonds, sem sjálf er heyrnalaus, er hreint mögnuð í hlutverkinu. Heyrnaleysið þýðir að hún þarf að skilja hljóð öðruvísi en við hin, pæla meira í því, á öðrum forsendum en við erum vön, en núna þurfa nefnilega skyndilega allir að hugsa um hljóð á annan hátt en þeir eru vanir.

Það er raunar forvitnilegt hversu heyrnarleysi er skyndilega algengt umfjöllunarefni í Hollywood. Ein af betri myndum síðasta árs var Sound of Metal, sem fjallaði um trommuleikara sem er að missa heyrnina. Heyrnarlausa leikkonan í þeirri mynd verður seinna á árinu fyrsta heyrnarlausa ofurhetjan í bíó í myndinni Eternals. Sound of Metal hóf annars ferðalag sitt á Sundance-kvikmyndahátíðinni fyrir rúmu ári og núna í ár varð myndin CODA keypt fyrir metfé á hátíðinni. CODA er enska skammstöfunin fyrir börn heyrnarskertra foreldra, Children of Deaf Adults. Börn sem þurfa bæði að læra á heim hinna heyrandi og hinna heyrnarlausu strax í barnæsku.

En hverfum aftur til Þögluvíkur. Líklega var fyrri myndin örlítið betri en þessi rímar hins vegar miklu sterkar við tímana sem hún er frumsýnd á. Það sem eitt sinn var fantasía er skyndilega einkennilega kunnuglegt. Dularfullar örverur koma og gerbreyta heiminum á einni nóttu, við könnumst skyndilega við það. Dularfullar drápsóðar geimverur er vissulega aðeins ýktara dæmi og þessi veröld aðeins tómlegri en okkar var þegar kófið var hvað þykkast, en þetta er bara aðeins ýktari útgáfa af svipuðu ástandi. Í myndinni erum við stödd á degi 474 eftir innrásina. Jafnvel tímaramminn er kunnuglegur.

Býsna stór hluti allrar sagnalistar finnur dramað í sögum sem fjalla í grunninn um skort. Skort á ást, skort á velgengni, skort á fjárhagslegu öryggi, skort á friði, skort á lífsfyllingu, allt eftir aðstæðum hvers og eins. Þar af leiðandi tala þær mismikið til okkar, allt eftir því hvað okkur sjálf skortir, og hvaða skort við eigum auðvelt við að tengja við.

En upplegg A Quiet Place-myndanna snýst um skortinn á því sem við teljum sjálfsagt. Um það að geta skyndilega ekki farið óhultur út að ganga. Um fjarveru þessa sjálfsagða hljóðheims sem við erum vön. Um skortinn á öllu eðlilegu samneyti við annað fólk, fyrir utan innstu kjarnafjölskylduna, ef þú ert svo heppinn að hún sé með þér. Jafnvel um skortinn á súrefni, sem reynist hugvitsamleg viðbót í einni lykilsenu, þar sem mamman og sonurinn þurfa að deila súrefniskút kornabarnsins í þröngu og súrefnislitlu rými.

Hún fjallar líka um skortinn á nútímasamgöngum, sem fær okkur til að endurskoða hefðbundið borgarlandslag. Dalirnir og hæðirnar öðlast aftur gömlu merkingu sína þegar það er ekki hægt að keyra þangað lengur eða taka strætó.

Með öðrum orðum fjallar hún um skortinn á öllu því sem okkur þykir sjálfsagt. Eða þótti.

Undir lok fyrri myndarinnar þá fundu manneskjurnar þó óvæntan veikleika hjá geimverunum, sem fram að því virtust ódrepandi. Hátíðnihljóð sem ærði þær og gerði særanlegar var þeirra akkilesarhæll. Spurningin sem Regan veltir því fyrir sér í framhaldinu er einföld, og er vitaskuld nauðsynlegt að spyrja sig hér, í útvarpi allra landsmanna:

Getur útvarpið bjargað heiminum?