Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bjartsýn á lokaspretti prófkjörs

Mynd: RÚV/Bragi Valgeirsson / RÚV/Bragi Valgeirsson
Mun meiri kjörsókn er í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins nú en í síðasta prófkjöri í kjördæminu. Búist er við lokatölum á þriðja tímanum í nótt. Bæði oddvitaefnin kveðast bjartsýn á góð úrslit.

Prófkjörið hófst á miðvikudaginn og lokuðu síðustu kjörstaðir klukkan sjö í kvöld. Haraldur Benediktsson freistar þess að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, líkt og hann gerði fyrir síðustu kosningar. Hann hefur lagt allt undir í prófkjörinu og segist ekki ætla að þiggja annað sætið, verði það niðurstaðan. „Ég er alltaf bjartsýnn. Núna er þetta bara í höndum fólksins og við sjáum bara hvað kemur út úr þessu.“

Haraldur gaf það út á dögunum að hann myndi ekki þiggja annað sæti verði það niðurstaðan. Ætlar hann að standa við það? „Já ég hef verið mjög hreinskilinn með það að segja að nýr oddviti hlýtur að vilja horfa á sína áhöfn og hvers vegna ætti hann að vera að dragnast með gamlan oddvita með sér í aftursætinu. Við sjáum til.“

Er ekkert að fara að hætta í pólitík

Haraldar bíður erfitt verkefni enda keppinauturinn varaformaður flokksins og ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Hún er bjartsýn fyrir kvöldið. „Ég finn auðvitað fyrir miklum og breiðum stuðningi sem að ég er ofsalega þakklát fyrir þannig að jú, ég leyfi mér alveg að vera bjartsýn.“

Hún segist munu una niðurstöðunni hver sem hún verður. „Ég hef nú bara sagt að ég talaði fyrir því að það yrði prófkjör og fólkið í kjördæminu stillir upp listanum eins og það telur sigurstranglegast. Og ég er vonandi ekkert að fara að hætta í pólitík.“

Kjörsókn mun meiri en í síðasta prófkjöri

Formaður kjörstjórnar segir framkvæmd prófkjörsins hafa gengið vel og hafa engar athugasemdir borist vegna hennar. „Kjörsókn mjög góð. Ef að við horfum á hvernig þetta gekk fyrir sig síðast þegar það var prófkjör hérna í kjördæminu þá voru 1.516 sem kusu í prófkjörinu. Núna erum við komin með tæplega 1900 atkvæði í hús og kjörstöðum ekki enn búið að loka þannig að þetta lítur bara mjög vel út,“ segir Sandra Margrét Sigurjónsdóttir, formaður kjörstjórnar.

Atkvæðin verða talin í Menntaskólanum í Borgarnesi. Talning hefst klukkan fimm og er stefnt að því að birta fyrstu tölur klukkan níu. Lokatölur gætu legið fyrir á þriðja tímanum í nótt.

Framsókn tilkynnir úrslit á morgun

Framsóknarflokkurinn í Suðurkjördæmi er einnig með prófkjör í dag. Þar situr formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson einn að fyrsta sætinu en þingmaðurinn Silja Dögg Gunnarsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson bítast um annað sætið. Kosning fer fram í dag en talið verður á morgun og úrslit tilkynnt síðdegis.

Magnús Geir Eyjólfsson