Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ástralir og Kínverjar takast á um tolla á innflutt vín

19.06.2021 - 00:20
epa09272676 Australian counterpart Scott Morrison, gestures during a joint news conference, with British Prime Minister Boris Johnson, during their bilateral meeting in the garden of number 10 Downing Street in London, Britain, 15 June 2021. The U.K. is set to announce the broad terms of a free-trade deal with Australia on 15 June, its latest post-Brexit accord as Prime Minister Boris Johnson seeks to expand commerce beyond the European Union.  EPA-EFE/Luke MacGregor / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Stjórnvöld í Ástralíu hafa lagt fram formlega kvörtun til Alþjóða-viðskiptastofnunarinnar vegna tolls sem Kínverjar leggja á innflutt vín til að hindra að þau verði seld á lægra verði en í framleiðslulandinu.

Í yfirlýsingu frá áströlsku ríkisstjórninni segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin í samráði við þarlenda vínframleiðendur. Jafnframt er enn sagður góður möguleiki á að semja beint við Kínverja um lausn á málinu. 

Scott Morrison, forsætisráðherra  Ástralíu, segir að ríkisstjórn hans muni ætíð bregðast við, verði reynt að beita landið viðskiptaþvingunum. Deilur hafa færst mjög í aukana milli Kína og Ástralíu undanfarið en víntollarnir eru nýjasta ágreiningsmálið.

Stjórnvöld telja að með auknum álögum á ástralskar vörur séu Kínverjar að refsa Áströlum fyrir að standa gegn auknum framkvæmdum þeirra á viðkvæmum svæðum í landinu og vegna kröfunnar um rannsókn á uppruna kórónuveirufaraldursins.  

Á nýafstöðnum fundi G7 ríkjanna var tekið undir þetta viðhorf Ástrala og lögð áhersla á að ríkjum heims bæri að bregðast við af einurð gagnvart viðskiptaháttum Kínverja. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV