Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við verðum að pressa áfram“

18.06.2021 - 03:36
epa09280870 Copies of the 18 June 2021 Apple Daily newspaper sit in a proof reader’s desk in the newsroom of the newspaper in Hong Kong, China, 17 June 2021. Hong Kong's national security police arrested five directors of the Apple Daily newspaper on suspicion of conspiracy to collude with foreign forces under the China-imposed legislation.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dagblaðið Apple Daily kom út í Hong Kong í morgun að staðartíma sólarhring eftir að öryggislögregla gerði áhlaup á ritstjórnarskrifstofur þess. Upplagið er margfalt það sem venjan er en blaðið er víða uppselt.

Aðalfyrirsögnin sýnir ögrandi tilburði ritstjórnarinnar gagnvart valdinu í Kína:  „Við verðum að pressa áfram“, er ritað stóru gulu letri þvert yfir forsíðuna. Þau orð lét framkvæmdastjórinn Cheung Kim-hung falla þegar lögreglumenn leiddu hann út af skrifstofunni í handjárnum.

Yfir fimm hundruð lögreglumenn tóku þátt í áhlaupinu á skrifstofur blaðsins í gærmorgun en yfirvöld segja ástæðuna vera skrif þess þar sem hvatt var til viðskiptaþvingana gagnvart Kína.

Fjórir stjórnendur voru handteknir auk framkvæmdastjórans, þar á meðal aðalritstjórinn Ryan Law. Heldur var tómlegt um að litast þegar starfsfólk sneri aftur á ritstjórnarskrifstofuna enda voru fjölmargar tölvur og harðir diskar fjarlægð sem sönnunargögn.

Unnið var baki brotnu alla nóttina við að koma blaðinu út og það tókst. Undir mynd af fimmmenningunum sem voru handteknir var því lýst sem fyrir bar morguninn áður og að 44 diskar með fréttaefni hafi verið gerðir upptækir.

Blað föstudagins er prentað í 500 þúsund eintökum sem er margfalt það sem venjulega gerist en blaðamennirnir vonast til að þeir íbúar Hong Kong sem vilja eitthvað hafa að segja um framtíð borgarinnar kaupi eintak.

Það virðist hafa gengið eftir því Apple Daily er víða uppselt og AFP fréttastofan hefur eftir blaðsölufólki og kaupendum að margir hafi keypt fleiri en eitt eintak.  

Kona sem kallar sig Polly rifjar við blaðamann AFP að um árabil hafi mátt segja hvað sem er í Hong Kong. „Á einu ári hefur allt gjörbreyst, allt er á fallanda fæti og það gerist svo hratt,“ segir Polly sem keypti 10 eintök af Apple Daily.

Steven Chow keypti þrjú eintök og sagði að rödd blaðsins væri einstök. „Það er enginn fjölmiðill fullkominn. Það getur vel verið að þér líki ekki innihaldið en það er miklvægt að blaðið hafi rödd áfram og að það lifi af.“