Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þrjár líkamsárásir í nótt og mikill erill hjá lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt. Í dagbók lögreglu kemur fram að tilkynnt hafi verið um þrjár líkamsárásir í gærkvöld og þónokkuð hafi verið um ölvun í borginni.

Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás þar sem gestur réðst á húsráðanda og stal af henni úlpu og síma. Hann var farinn þegar lögregla kom á vettvang. 

Þá var tilkynnt um hóp manna sem sagður er hafa ráðist á tvo ölvaða menn í miðborg Reykjavíkur eftir miðnætti. Mennirnir fóru sjálfir á bráðamóttöku. Á öðrum tímanum í nótt barst svo tilkynning um að tveir menn hefðu ráðist á mann. Var hann fluttur á bráðamóttöku. 

Mikið um tilkynningar vegna ölvaðs fólks 

Nokkuð var um að lögregla væri kölluð til vegna fólks undir áhrifum. Meðal annars var tilkynnt um ofurölvi par með átta ára barn á veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Faðirinn var handtekinn en hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var því vistaður í fangageymslu. 

Tvær bifreiðar voru stöðvaðar þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, annar jafnframt um vörslu þeirra.