Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stefnir í innan við 40% kjörsókn í Íran

18.06.2021 - 23:37
epaselect epa09282447 Iranian girls check their ID papers to cast their votes at a polling station during the presidential election in Tehran, Iran, 18 June 2021. Iranians head to polls to elect a new president after eight years with Hassan Rouhani as head of state.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kjörstöðum í Íran hefur verið lokað og talning hafin í forsetakosningum þar sem talið er líklegast að íhaldsmaðurinn Ebrahim Raisi sigri. Áhugi á kosningunum virðist í minna lagi meðal kjósenda.

AFP fréttaveitan segir að kjörsókn hafi verið ríflega 37% og hefur það eftir þarlendu fréttastofunni Fars. Íranir búsettir erlendis greiddu einnig atkvæði sín í dag.

Ajatollinn Ali Khamenei varð fyrstur til að kjósa í dag og brýndi þær 60 milljónir sem hafa kosningarétt til að gera hið sama. Khameinei sagði að því fyrr sem fólk mætti á kjörstað því betra. Hann sagði kjósendur tryggja betri framtíð Írans með þátttöku sinni. 

Búist er við niðurstöðum um hádegi á laugardag að staðartíma. Nái enginn frambjóðenda hreinum meirihluta verður kosið milli þeirra tveggja efstu að viku liðinni. 

Skiptar skoðanir virðast um gildi kosninganna í hugum kjósenda en sérstakt ráð klerka og lögspekinga valdi sjö frambjóðendur úr hópi þeirra 600 sem vildu gefa kost á sér. Þrír heltust úr lestinni skömmu fyrir kosningar.

Meðal þeirra sem ekki hlutu náð fyrir augum ráðsins eru Mahmoud Ahmadinejad, fyrrverandi forseti Írans og Ali Larijani fyrrverandi þingforseti. Nýr forseti tekur við embætti af Hassan Rouhani í ágúst næstkomandi.

Hópar íranskra stjórnarandstæðinga, bæði utan landsteinanna og innan, hafa ítrekað hvatt kjósendur til að hunsa kosningarnar enda hafi sigur Raisis verið fyrirfram ákveðinn. 

Raðir mynduðust þó við kjörstaði og AFP hefur eftir allmörgum að Raisi yrði fyrir valinu enda hefði hann heitið því að taka á spillingu, aðstoða fátækt fólk og byggja húsnæði fyrir efnaminni fjölskyldur. 

Þungbært efnahagsástand, viðskiptaþvinganir, mikil verðbólga, atvinnuleysi í landinu virðast einnig draga úr áhuga kjósenda. Kórónuveirufaraldurinn hefur dýpkað alvarlegt ástand í landinu.