Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óttast að kvótinn klárist í júlí

18.06.2021 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Strandveiðisjómenn eru búnir að veiða tæplega helming kvótans þegar tveir og hálfur mánuður er eftir af veiðitímabilinu.  Svo gæti farið að búið yrði að veiða allan kvótann í lok júlí.

Rúmlega 600 sjómenn stunda strandveiðar í sumar, eða svipaður fjöldi og í fyrra. Veiðisvæðin eru fjögur. Vel hefur fiskast á svæðum A og B en samdráttur er á hinum svæðunum.  Þannig var veiðin á svæði D, fyrir Suðurlandi, tæplega þúsund tonn í fyrra en um 730 tonn í sumar. Á svæði A er búið að veiða 2.400 tonn, 570 tonnum meira en á sama tíma í fyrra.

Veiðarnar hófust í maí og þeim á að ljúka í ágúst. Búið er að veiða 42 prósent kvótans þegar tveir og hálfur mánuður er eftir af veiðitímabilinu. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, hefur áhyggjur af að veiðiheimildir nægi ekki og að kvótinn verði búinn í júlí.

Í fyrra jók sjávarútvegsráðherra kvótann. Þá nam veiðin 10.720 tonnum. Örn vonast til þess að aukið verði við kvótann í ár. Hafrannsóknastofnun leggur til þrettán prósenta samdrátt í þorskveiði á næsta fiskveiðiári.

Örn segir að verði það niðurstaðan komi það til með að bitna hart á sjómönnum. „95 prósent af öllum afla á strandveiðum er þorskur“, segir Örn. Hann segir nauðsynlegt að skoða forsendur veiðiráðgjafarinnar og jafnvel að stokka eitthvað upp í kerfinu með tilliti til þess hve þorskurinn er mikilvægur fyrir smábátana.