Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Minnst 27 námuverkamenn látnir í rútuslysi í Perú

18.06.2021 - 21:38
Mynd með færslu
Mikið fjalllendi er í Perú og fjallvegir margir og margvíslegir eftir því. Þessi liggur til fjallabæjarins Tarma í Junin-héraði, í hjarta Perú. Mynd: TCP - Wikimedia
Að minnsta kosti 27 létust þegar rúta með námuverkamenn ók fram af fjallvegi og ofan í snarbratt gil í suðurhluta Perú fyrr í dag að því er vinnuveitandi þeirra sagði. Þetta kemur fram í fréttaskeyti frá AFP fréttastofunni.

Auk hinna látnu slösuðust 16 námuverkamenn í slysinu sem varð snemma morguns að staðartíma á vegi í Andesfjöllum. Rútan, sem var á vegum námafyrirtækisins Ares, hrapaði niður í gil sem er um 400 metra djúpt.

Mannskæð bílslys algeng

Þetta er annað umferðarslysið þar sem margir týna lífi í Perú síðastliðna 10 daga, en þar eru mannskæð slys tíð vegna hraðaksturs ökumanna, illa viðhaldinna þjóðvega, skorts á skiltum og lélegrar gæslu umferðaröryggis.

Jón Agnar Ólason