Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Loka verður flóttaleiðum veirunnar sem fyrst

Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV
Loka verður sem flestum flóttaleiðum kórónuveirunnnar sem fyrst segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómum og yfirlæknir á Landspítalanum. Ef það verði ekki gert heldur hún áfram að breyta sér. Ólíklegt sé að hægt verði að útrýma henni alfarið. 

Víða fjölgar smitum á ný

Smitum er farið að fjölga í nokkrum löndum aftur og ekki útilokað að það geti gerst hér á landi.  Þetta á sér stað á sama tíma og dregið er úr smitvörnum og hömlum víða í nágrannalöndunum.

Kórónuveirusýkingum fjölgar í Rússlandi, Indónesíu, Portúgal, Pakistan, Bretlandi og eflaust víðar. Magnús  segir að sýkingum geti fjölgað aftur hér á landi líka. „Það er ekki útilokað enn sem komið er af þeirri einföldu ástæðu að það er enn þá talsverður hópur óbólusettur og meðan svo er þá er brennsluefni til fyrir veiruna og tækifæri fyrir hana til þess að smita og stökkva manna á milli.“   

Ólík staða í Bretlandi

Staðan í Bretlandi sé hins vegar talsvert frábrugðin því sem er að gerast hér á landi. Þátttaka sé afar misjöfn í bólusetningum eftir aldurshópum. Þátttaka meðal yngstu hópanna sé tiltölulega lítil, enn sem komið er og smitin flest í þeirra hópi.

Skaðinn ætti að vera tiltölulega lítill ef allt gengur eftir því  bóluefnin hafi áhrif gegn alvarlegum veikindum og markmiðið með bólusetningu sé að koma í veg fyrir innlögn á sjúkrahús. 

Bólusetja verður alla sem fyrst

Magnús segir að á meðan stór hluti jarðarbúa sé óbólusettur eigi veiran eftir að halda áfram að stökkbreytast og halda sínum flótta áfram undan bóluefnunum. Það sé áhyggjuefni þegar til lengri tíma sé litið, sérstaklega ef ekki tekst að tryggja jafnari dreifingu bóluefna. Hve fljótt þarf það að gerast? „Maður getur sagt því fyrr því betra. Það skiptir mjög miklu máli að við lokum sem flestum flóttaleiðum fyrir þessari veiru og reynum að tryggja það að hún nái ekki að mynda afbrigði sem sleppa undan bóluefnunum.“ Ef það gerist þá þurfi að taka umræðuna um endurbólusetningar og þróun lítið breyttra afbrigða.  Framtíðin muni leiða í ljós hvort, hvenær og hvernig það gerist. 

Sum bóluefni betri en önnur

Hvernig þessi þróun verður fer að einhverju leyti eftir því hvaða bóluefni hafa verið valin. Í ljós hafi komið að í Indónesíu hafi kínverska bóluefni Sinovac, sem er veikluð veira, verið notað og vörnin af því ekki nægilega góð. „Þeir hafa verið að lenda í verulegum vandræðum núna síðustu daga vegna hraðrar aukningar sem skýrist af útbreiðslu delta-afbrigðisins. Þetta tiltekna bóluefni sem þeir hafa notað virðist ekki duga nægilega vel. Hins vegar hafa þau bóluefni sem eru í notkun hér og á Vesturlöndum almennt, þau virðast virka ágætlega gegn þessu afbrigði enn sem komið er.“

Magnús segir að það sé of mikil einföldun að tala um hjarðónæmi fyrir veiru sem sé jafn breytileg og þessi. „Gott er að hafa inflúensuna til samanburðar.  Við erum alltaf að reyna að bregðast við og koma í veg fyrir stórfellda útbreiðslu inflúensu með því að bólusetja og komast næst hjarðónæmisþröskuldi til að lágmarka skaðann sem hún veldur.“ 

Mjög erfitt sé að ná því markmiði. Það sé því ekki spurning um að ná hjarðónæmi á meðan veiran heldur áfram að breyta sér. „Þá erum við dálítið dæmd til að elta hana og reyna að  bregðast við þeim breytingum sem verður á henni.“  

Líklega ekki hægt að útrýma henni

Verður þá ekki hægt að útrýma henni alfarið? „Það finnst mér afskaplega ólíklegt. Það eru fleiri kórónuveirur til í samfélaginu sem hafa náð alheimsútbreiðslu. Við erum að vísu ekki að bólusetja gegn þeim veirum en það er afskaplega algengt að fólk fá síkar sýkingar, sem eru tiltölulega vægar.  „Það eru nægilega margir sem ekki hafa myndað mótefni gegn þessum veirum til þess að þær geti haldið hringferð sinni áfram.“

Magnús telur að faraldurinn hafi haft áhrif á hvernig vel flestir haga sér.  Sumir séu komnir í sama farið og áður, en en aðrir eru varari um sig.  „Ég reikna nú með að sumt af því sem við höfum þurft að tileinka okkur í þessum faraldri muni lifa með okkur áfram.“