Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Líklegast að íhaldsamur klerkur verði forseti Írans

18.06.2021 - 02:30
epa09277360 Women supporters of Iranian presidential candidate Ebrahim Raisi hold pictures depicting him, during an election campaign rally in Tehran, Iran, 16 June 2021. Iranians will vote in a presidential election on 18 June 2021.   EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búist er við að kjörsókn í forsetakosningum í Íran í dag föstudag, verði mjög lítil. Kjörstaðir verða opnaðir klukkan sjö að staðartíma og verða opnir til miðnættis og jafnvel tveimur klukkustundum lengur sumstaðar. Líklegast er talið að Íranir velji sér íhaldsaman klerk sem forseta.

Niðurstaðna í kosningunum er að vænta um hádegi á laugardag. Um það bil 60 milljónir eru á kjörskrá í landinu en mjög lítið hefur farið fyrir kosningabaráttu frambjóðendanna.

Það er helst að íhaldsklerkurinn Ebrahim Raisi hafi verið áberandi en talið er líklegt að hann muni hafa sigur í kosningunum. Nýr forseti tekur við í ágúst en núverandi forseti, hinn hófsami Hassan Rouhani hefur setið þau tvö kjörtímabil sem stjórnarskrá landsins leyfir.

Æðsta vald í Íran er í höndum erkiklerksins Ali Khamenei forseti íslamska lýðveldisins er æðsti maður stjórnsýslunnar og getur haft mikil áhrif á mörgum sviðum, til að mynda í samskiptum við erlend ríki.

Upphaflega sóttust 600 eftir því að gefa kost á sér til embættis forseta en Varðliðið, ráð tólf klerka og lögspekinga, samþykkti framboð sjö karla. Tveimur dögum fyrir kosningarnar hættu tveir frambjóðendanna við.  

Þeir frambjóðendur sem eftir eru teljast heldur íhaldsamir, að undanskildum seðlabankastjóranum Abdolnasser Hemmati sem lofar að endurreisa bágborinn efnahag landsins. Hann hefur haft eiginkonu sína sér við hlið í kosningabaráttunni sem telst óvenjulegt í Íran. 

Fái enginn frambjóðenda meirihluta atkvæða verður kosið milli þeirra tveggja efstu að viku liðinni. Khameini erkiklerkur hefur opinberlega hvatt landa sína til að velja sér sterkan forseta enda muni satanísk öfl í heiminum gera allt hvað þau geta til að grafa undan trúverðugleika kosninganna. 

Þar á æðstiklerkurinn við Bandaríkin og önnur vestræn ríki. Ebrahim Raisi hefur í írönskum fjölmiðlum verið nefndur sem mögulegur arftaki Khameinis sem verður 82 ára í næsta mánuði. Khameini var einmitt forseti sjálfur þegar hann tók við sem erkiklerkur við andlát byltingarleiðtogans Ruhollah Khomenei árið 1989.