Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrsti traktor Vopnafjarðar tilbúinn í heyskap

18.06.2021 - 20:50
Mörgum þykir vænt um gamlar Ferguson dráttarvélar sem leystu hestinn af hólmi víða til sveita. Fergusonfélagið kom færandi hendi til Vopnafjarðar í dag með fyrsta traktorinn sem kom til fjarðarins; nýuppgerðan og brúklegan í heyskap.

Við erum á Bustarfelli í Vopnafirði og Fergusonfélagið er komið alla leið frá Reykjavík með Ferguson árgerð 1949. Félaginu var gefin vélin fyrir tveimur árum þegar nokkrir félagsmenn komu í Vopnafjörð í leit að traktoragulli. Sigurður Skarphéðinsson gerði gripinn upp í Mosfellsbæ í vetur.

„Við ákveðum það á meðan á þessu ferli stendur að skila honum heim í hérað sem fyrstu vél. Hann bar skráningarnúmerið SD6 þannig að hann er framarlega í röðinni og hér erum við komnir með hann, upp gerðan og fínan og eins og sést er hægt að slá með honum og gera allar hundakúnstir,“ segir Jón Ingimundur Jónsson, formaður Fergusonfélagsins.

„Þetta er bara frábært að geta sýnt fólki þessa vel upp gerðu vél. Þetta var náttúrulega mikil bylting að fá þetta í sveitirnar. Þannig að hún mun sóma sér vel hérna,“ segir Eyþór Bragi Bragason, forstöðumaður minjasafnsins á Burstarfelli.

Það var Ragnar Jónasson sem stofnaði Fergusonfélagið árið 2007. „Fyrir þann tíma þá voru traktorskarllar bara skrítnir karlar með skítuga putta inni í skúrum. Það má segja að með Fergusonfélaginu þá höfum við náð þeim út úr skúrnum. Í dag erum við hátt í 300 sem erum í félaginu. Höldum fundi, utanlandsferðir og bara líf og fjör,“ segir Ragnar.

Sigurður Björnsson frá Krossavík átti traktorinn lengst af. Faðir hans keypti vélina nýja 1949 og Sigurður var ekki orðinn fimm ára þegar hann ók henni fyrst óumbeðinn. „Átta ára fékk ég próf. Tæplega átta ára. Heimatilbúið,“ segir Sigurður.

„Margir ólust upp á Ferguson. Þetta var það sem til var heima þar sem menn ólust upp í sveit. Við öll sem erum komin með þennan háralit minn eru sveitamenn einhvers staðar frá. Þannig að: Já þetta eru tilfinningar,“ segir Jón Ingimundur Jónsson, formaður Fergusonfélagsins.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV