Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Förum ekki í samkeppni við spákonur landsins“

18.06.2021 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa þróað líkan sem styðst við mælingar á eggjahvítuefnum í blóði og spáir fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað  af mun meiri nákvæmni en líkön sem styðjast við hefðbundna áhættuþætti. Fjallað er um rannsóknina í vísindaritinu Communications Biology í dag.

 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir líkanið spá fyrir um hversu mikið er eftir af lífi fólks án þess að maður geri nokkurn skapaðan hlut við því ástandi sem það er í. Í framtíðinni gæti prófið nýst sem mælikvarði á hversu vel aðferðir sem notaðar eru virka til að hlúa að fólki. 

„Þetta er ekki hugsað sem kristalskúla. Við erum ekki að fara í samkeppni við spákonur landsins. Síður en svo. Við erum að reyna að skilja hvaða upplýsingar má fá útúr því að mæla 5000 prótín í blóði mjög stórs hóps af fólki.“

Spálíkanið byggist á lífsýnum úr u.þ.b. 23 þúsund manns og með því er unnt að spá fyrir um tíma til dauða af meiri nákvæmni en líkön sem byggjast á þekktum áhættuþáttum. Þannig var hægt að finna þau 5% úr hópi þátttakenda á aldrinum 60 til 80 ára, sem voru með 88 prósent líkur á að deyja innan 10 ára, og einnig þau 5% sem voru einungis með 1% líkur.
Þeir sem mældust líklegir til að eiga skammt eftir ólifað voru einnig ekki eins handsterkir og hinir, þeir stóðu sig verr á þrekprófi og sýndu lakari árangur í hugrænum verkefnum.

„Fyrir mínum augum þá lítur þetta svolítið ógnvekjandi út. Þetta er svolítið „Orwellian“ að geta leitt líkum að því hversu lengi menn koma til með að lifa. Alltaf þegar við sjáum hjá fólki veikleika, hvort sem það er í breyttu sykurþoli, hækkuðum blóðþrýstingi, hækkaðri blóðfitu og svo framvegis þá vonumst við til að geta gert eitthvað í því. Í þessu tilfelli erum við með miklu stærra net til að leita að veikleikum og ég vona að heilbrigðiskerfinu takist að finna einhvers konar aðferðir til þess að að takast á við það. En ég hef engan áhuga á því að láta mæla þetta í mér.“

Hvers vegna ekki?

„Vegna þess að ég vil ekki þurfa að breyta lífsstílnum mínum mikið.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV