Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fannst erfitt að stíga á verðlaunapall á Ólympíuleikum

Mynd: EPA / Sigfús Sigurðsson

Fannst erfitt að stíga á verðlaunapall á Ólympíuleikum

18.06.2021 - 14:21
Það bærðust blendnar tilfinningar í brjósti Sigfúsar Sigurðssonar þegar hann steig á verðlaunapall á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Sigfús Sigurðsson, handboltamaður, segir að sterkasta minningin af Ólympíuleikunum 2008, þar sem landslið karla í handbolta hlaut silfurverðlaun, hafi verið fyrri hálfleikurinn á móti Frakklandi.

„Af því að ég er svo ógeðslega tapsár,“ segir hann í samtali við Einar Örn í þættinum Á bekknum á Rás 2. Ísland tapaði leiknum 28-23 og staðan í hálfleik var 15-10. „Ég man miklu meira eftir töpunum heldur en sigrunum. Það situr rosalega í mér því það var lag að vinna Frakkana. Tillögurnar sem komu fyrir leik og var breytt í hálfleik voru að virka því við vorum næstum búnir að ná þeim.“

Þarna var Sigfús á síðustu metrunum líkamlega og afstaða hans til mótsins ólík því sem áður var. „Við förum út og ég tók þessu móti allt öðruvísi heldur en öllum öðrum mótum sem ég hafði farið á. Þarna fór ég út með það mottó að ég ætlaði að njóta þess að vera þarna og leggja mitt af mörkum ef ég gæti hjálpað. Það kom svo í ljós í tveimur síðustu leikjunum okkar að ég hafði eitthvað fram að leggja.“

En það var sérkennilegt að taka á móti silfurverðlaununum að loknum úrslitaleiknum gegn Frökkum. „Það var ólýsanlegt en samt rosalega skrýtið að stíga upp á verðlaunapall með það á bak við eyrað að við áttum að vinna. Það var skrýtið og erfitt. Að fara upp og sýna gleði eftir að hafa skrifað sig á spjöld sögunnar og samt vera fúll yfir því, það er brenglað einhvern veginn.“

Þetta var síðasti landsleikurinn hans Sigfúsar. „Það var helvíti gott að ljúka þessu svona,“ segir hann þrátt fyrir allt, „en svo var ég svo þrjóskur að ég ætlaði að koma mér í stand fyrir Ólympíuleikana 2012. Ef hnéð á mér hefði haldið hefði ég verið kominn í betra stand heldur en 2008.“

Einar Örn Jónsson ræðir við íþróttafólkið Sigfús Sigurðsson, handboltamann, og Helenu Sverrisdóttur, körfuboltakonu, í þættinum Á bekknum á Rás 2.