Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki sjálfgefið að komast í sumarfrí

18.06.2021 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Húsavík
Á Húsavík er nú haldin um helgina sumarhátíð fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Þar koma saman fjölskyldur af öllu landinu og gera sér glaðan dag.

Styrkt af félagsmálaráðuneytinu

Þetta er annað árið í röð sem sumarhátíðin stendur fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra til boða. Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-faraldursins. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra stendur að skipulaginu og Atli Lýðsson leiðir verkefnið. Atli segir að þetta sé eitt af því fáa góða sem faraldurinn leiddi af sér.

„Við erum svolítið fljót að gleyma en það var nú bara þannig þegar þessi faraldur fór af stað þá lokuðu flest allar þjónustustofnanir t.d. fyrir fatlaða og börn og settu mjög margar fjölskyldur sem eiga börn sem þurfa mikla athygli og hjálp í erfiða og flókna stöðu og fólk þurfti stundum að klára sumarfríið sitt og alla vega til að geta verið heima með börnin sín í hálfgerðu stofufangelsi í margar vikur,“ segir Atli.

Sumarfrí ekki sjálfsögð

Í fyrra voru um 20 fjölskyldur sem fóru í þetta skipulagða sumarfrí í Vík í Mýrdal en nú eru fjölskyldurnar um 40 sem verða annað hvort í Vík eða á Húsavík. Fjölskyldur alls staðar að af landinu geta þannig tekið þátt án þess að þurfa að ferðast of langa vegalengd. Verkefnið er unnið að norrænni fyrirmynd þar sem markmiðið er að gefa fjölskyldum fatlaðra barna tækifæri til að fara í skemmtilegt frí saman, sem annars getur verið mjög flókið og erfitt. 

Atli segir að sumar fjölskyldur barna með fötlun hafi ekki farið í frí saman svo árum skipti. „Þau hafa sum aldrei komist í frí sem fjölskylda síðan að þessi börn fæddust. Þannig að það er ótrúlegt hvað þetta hefur gefið fólki að upplifa skemmtilega hluti sem fjölskylda ef það fær þá aðstoð sem á þarf að halda.“ 

Mikilvægt að mynda tengsl 

Starfsfólk Reykjadals er með í för og mikið lagt upp úr því að allir fái að njóta sín, börnin jafnt sem foreldrar þeirra og systkini. „Það fylgir því oft mikil félagsleg einangrun að eiga börn og annast sem þurfa mikla aðstoð og þetta er gullið tækifæri bæði fyrir systkini og foreldra ekki síður en fötluðu börnin að kynnast, ræða sameiginlega lífsreynslu og deila gleði og sorgum,“ segir Atli.

Atli var mættur á Húsavík þar sem sumardvölin er um helgina og sagði að þar væri mikið verið að bralla. Hann nefndi t.d. hvalaskoðun, ferð á Mývatn, hestbak og fleira. Það sem honum þykir vænt um er hvað allir þjónustuaðilar taka verkefninu vel, eru tilbúnir til að veita sérstaka þjónustu og taka vel á móti hópnum til að veita fjölskyldunum ógleymanlegt sumarfrí.