Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki reynt að stöðva hraunrennsli yfir Suðurstrandarveg

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ekkert verður aðhafst til að reyna að koma í veg fyrir að hraun streymi yfir Suðurstrandarveg. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hraunið er nú þunnfljótandi og rennur hratt ofan í Nátthaga. Talið er að vika sé þangað til það finnur sér leið þaðan. 

„Það er virkni bæði í Nátthaga og Meradölum. Hraunið er að stækka til allra átta og eins og staðan er núna lítur út fyrir að það sé innan við vika í það að það fari að streyma úr Nátthaga,“ segir Rögnvaldur.

Hraunið rennur samt ekki beint þaðan út á Suðurstrandarveg. „Nei, þá er smá vegalengd eftir og smá skál sem getur safnað einhverju efni. Ætli það séu ekki þá 2-3 vikur í að þetta geti verið komið alveg niður að sjó,“ segir Rögnvaldur. 

Til skoðunar hafi verið að gera varnargarða og reyna að beina hrauninu annaðhvort til austurs eða vesturs. Annars vegar að setja varnargarð í Nátthaga og beina hrauninu til austurs út úr Nátthaga, fram hjá Ísólfsskála. Önnur leið væri að setja varnargarð ofan við Ísólfsskála og senda hraunið þeim megin niður, þ.e. vestanmegin, og þá leiðina til hafs.

Varnargarðar svara ekki kostnaði og óvíst að þeir virki

„En engar af þessum leiðum munu halda til lengri tíma. Það er ljóst að ef þetta gos verður næstu árin þá mun á endanum fara yfir þessar varnir,“ segir Rögnvaldur. Eftir að hafa skoðað málið vel og rýnt í kostnað, var niðurstaðan sú að aðhafast ekkert að svo stöddu heldur leyfa hrauninu að fara sína leið. 

Þannig að á endanum fer hraunið yfir Suðurstrandarveg?

„Já, það er ljóst að á næstu vikum fer hraunið yfir Suðurstrandarveg á þessum stað og vegurinn væntanlega lokast á þeim tíma,“ segir Rögnvaldur. 

Verður vegurinn rofinn til að stýra hraunflæði?

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Það er þá í höndum Vegagerðarinnar að ákveða hvort verður farið í þannig framkvæmdir,“ segir Rögnvaldur. 

Er ástæða þess að ekkert verður aðhafst, sú að það er of dýrt eða eru landeigendur mótfallnir jarðraski?

„Nei, þetta snýst aðallega um tíma og kostnað og það að við getum ekki ábyrgst að það myndi halda. Út frá þessu öllu saman er erfitt að réttlæta að fara í þetta. Við munum frekar einbeita okkur að öðrum stöðum þar sem er meira undir,“ segir Rögnvaldur.

Flóttaleið hverfur

Þannig að íbúar á Reykjanesskaganum eru að missa flóttaleið um Suðurstandaveg?

„Já, það stefnir í að þessi leið verði ekki lengur fær eftir að það byrjar að streyma þarna yfir,“ segir Rögnvaldur.

Þannig að þá er það bara sjóleiðin?

„Það er sjóleiðin og svo er líka landleið vestur fyrir. En á endanum þarf alltaf að fara um Reykjanesbrautina. Þannig að Reykjanesbrautin verður þá eina leiðin þarna,“ segir Rögnvaldur.