Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bótaskylda barnaverndar staðfest en bætur lækkaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Landsréttur staðfesti í dag bótaskyldu Reykjavíkurborgar vegna meðferðar Barnaverndar Reykjavíkur á máli ungs drengs, en málsmeðferð dróst fram úr hófi og hafði varanleg neikvæð áhrif á fjölskylduna.

Foreldrar drengsins voru til rannsóknar vegna gruns um að hafa beitt hann ofbeldi, sem þau neita staðfastlega. Málsmeðferð tók heilt ár, en drengurinn var vistaður utan heimilisins í fjóra mánuði.

Varanleg örorka móðurinnar er metin 30% eftir aðgerðir barnaverndar, en foreldrarnir slitu samvistum í kjölfar málsins. Þá sýndi systir drengsins merki um mikla vanlíðan og erfiðleika við aðlögun að breyttum aðstæðum.

Ýmsir annmarkar á málsmeðferð

Í úrskurði Landsréttar segir að ýmsir annmarkar hafi verið á meðferð málsins af hálfu barnaverndar. Rannsókn hafi verið talin réttmæt, en ýmsar ákvarðanir hafi ekki verið teknar með hagsmuni barns og foreldra að leiðarljósi.

Er til að mynda fallist á barnavernd hafi gengið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og barnaverndarlaga með því að vista drenginn utan heimilis síns lengur en þarft var til að tryggja öryggi hans.

Héraðsdómur hafði komist að sömu niðurstöðu. Bætur fjölskyldunnar voru þó lækkaðar um helming frá dómi héraðsdóms. Fá foreldrarnir og börnin tvö, drengurinn og systir hans, hvert um sig eina milljón króna í miskabætur.

 

Grunuð um ofbeldi

Fjallað var um málið í Kveik árið 2017. Barnavernd var kölluð til vegna gruns um að foreldrar hefðu beitt drenginn ofbeldi. Grunur lék á að þau hefðu hrist son sinn sumarið 2013.

Foreldrarnir neita því og segja að heilablæðing sem drengurinn hlaut sé afleiðing þess að hann féll aftur fyrir sig á heimili þeirra. Foreldrarnir hafa flosnað upp úr námi og slitið samvistum og glíma bæði við mikinn kvíða og þunglyndi. Þau stefndu barnavernd vegna málsmeðferðarinnar.

Datt aftur fyrir sig og lenti á hnakkanum

Í dómnum, sem fréttastofa hefur undir höndum, er greint frá ferli málsins. Þar segir að seint í maí árið 2013 hafi drengnum svelgst á og faðir hans slegið á bak hans til að hjálpa honum að ná andanum. Í kjölfarið hafi hann kastað upp. Nokkrum dögum síðar fóru þau með hann til barnalæknis, því veikindi hans höfðu versnað. Geir Friðgeirsson barnalæknir tók á móti fjölskyldunni og meðhöndlaði drenginn með sýklalyfjum. 

Eftir nokkrar læknaheimsóknir vegna ofnæmisviðbragða við sýklalyfjum átti drengurinn tíma hjá lækni á Barnaspítala Hringsins 2. júní 2013. Að morgni þess dags þegar móðir drengsins var að undirbúa þau fyrir tímann féll drengurinn aftur fyrir sig á stofugólfinu og lenti harkalega á hnakkanum. Við komuna á Barnaspítalann gerði móðirin grein fyrir því sem hafði gerst og var hann settur í CT-myndatöku. Þar kom í ljós heilablæðing vinstra megin.

Eftir frekari skoðun töldu heilbrigðisstarfsmenn að um heilkenni ungbarnahristings (e. shaken baby syndrome) væri að ræða þar sem blæðingar greindust í augnbotni. Daginn eftir var Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynnt um málið og var drengurinn vistaður á vistheimili barna eftir útskrift af spítalanum. Var það gert í fullu samráði við foreldrana.

 

Taldi að ekki væri um SBS að ræða

Heimilislæknir fjölskyldunnar skilaði greinargerð nokkrum dögum síðar. Hann taldi að þetta væri ekki heilkenni ungbarnahristings, heldur væru áverkar til komnir vegna veikinda hans, og fallsins enda væri hann valtur þar sem hann væri enn að læra að ganga. 

Meðferð málsins tók langan tíma og var drengurinn vistaður utan heimilis síns í margar vikur. Foreldarnir líkja dvölinni á vistheimilinu við fangavist. Eftir tvær vikur þar sóttu þau um að fá að dvelja undir eftirliti hjá foreldrum föðurins sem var samþykkt. Við þá ráðstöfun voru reglur um umgengni foreldranna við soninn hertar. Þau máttu ekki vera eftirlitslaus í kringum hann. 9. október 2013 fengu þau svo að snúa til síns heima, um fjórum mánuðum eftir að málið hófst.