Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Umsvif að aukast á byggingarmarkaði

17.06.2021 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Velta á byggingarmarkaði hefur færst í aukana á síðustu mánuðum en á fyrstu tveimur mánuðum ársins nam hún 55 milljörðum króna. Hún hefur aukist smám saman frá því í júní á síðasta ári þegar hún var um 52 milljarðar króna. Um þetta fjallar hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í nýjustu mánaðarskýrslunni.

Fleiri kranar

Ýmsir fleiri mælikvarðar styðja að umsvif á byggingarmarkaði séu að aukast. Í skýrslunni segir að það megi meðal annars sjá á fjölda kranaskoðana;; á fyrstu fimm mánuðum ársins voru gerðar 134 kranaskoðanir og þær hafa aðeins mælst fleiri á þessum tíma árs árin 2007 og 2008. Byggingarkranar eru skoðaðir við uppsetningu og svo minnst einu sinni á ári og fjöldi skoðana þykir því gefa ágætismynd af umsvifum í byggingariðnaði.

Fleiri ný byggingarfyrirtæki og færri gjaldþrot

Auk þessa hefur nýskráningum fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fjölgað frá því í maí í fyrra; um 48 fyrirtæki voru skráð nú í maí en 26 í fyrra. „Á þennan mælikvarða er um metfjölda nýskráninga að ræða að minnsta kosti frá árinu 2008. Fjöldi gjaldþrota í greininni hefur einnig farið fækkandi en þau voru 14 í maí miðað við árstíðaleiðrétt hlaupandi meðaltal en voru um 20 í mars á síðasta ári,“ segir í skýrslunni.